Hæstiréttur staðfestir úrskurð um þjóðlendu á Brúaröræfum

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Austurlands um að nálægt 40% af landi Brúar I og II norðan Vatnajökuls sé þjóðlenda. Óbyggðanefnd úrskurðaði landið sunnan Álftadalsdyngju að Vatnajökli þjóðlendu 2007, landeigendur fóru með málið fyrir Héraðsdóm Austurlands, sem staðfesti úrskurð Óbyggðanefndar, líkt og Hæstaréttur gerir einnig. Stefán Halldórsson, annar eigandi Brúar er afar ósáttur við niðurstöðuna.

br_kort.jpg

,,Ég lít á þetta sem rán,“ segir Stefán Halldórsson. ,,Ég virðist nú vera búinn að missa forræði yfir 40% af landinu. Það er ekki snert við landi sem liggur norður af Jökulsá á Fjöllum, sem er álíka langt frá, en því var lýst í dómnum að okkar land væri svo langt frá byggð, þarna eru ekki sömu forsendur lagðar til grundvallar sem þó væri eðlilegt. (,,Staðhættir og fjarlægð þess frá byggð væru jafnframt þannig að ólíklegt væri að nokkur hluti þess hefði verið numinn."/Hæstiréttur). Það er skítt að láta ræna sig. Maður var þó auðvitað búinn að búa sig undir þessa niðurstöðu,“ segir Stefán.

 

Landeigendur kröfðust ógildingar á úrskurði óbyggðanefndar um þjóðlendu á Brúaröræfum og viðurkenningar á eignarréttarlegri stöðu Brúar á Jökuldal á svæðinu. Til landsins sem telst nú þjóðlenda heyrir 24 km2 svæði sem er undir Hálslóni og drjúg vatnsréttindi, sem Landsvirkjun mun væntanlega þurfa að greiða umtalsverðar fjárhæðir fyrir vegna Kárahnjúkavirkjunar, en nú til ríkisins en ekki landeigendanna.

   - 

Úr dómsskjölum Hæstaréttar:

 

Með úrskurði 29. maí 2007, þar sem fjallað var um þjóðlendur í Jökuldal norðan og vestan Jökulsár á Jökuldal ásamt Jökulsárhlíð, tók óbyggðanefnd kröfu stefnda til greina á tveimur nánar tilgreindum svæðum, þar sem land var talið vera innan marka þjóðlendu, auk þess hluta Vatnajökuls, sem málið tók til. Annað þessara svæða liggur milli Jökulsár á Jökuldal og merkja Laugarvalla í austri, Brúarjökuls í suðri, Kverkár og Kreppu í vestri og að norðan innan línu, sem dregin var eftir tilgreindum hæðarpunktum, en fyrir óbyggðanefnd höfðu áfrýjendur lýst þessu landsvæði sem hluta jarðarinnar B. Norðurmörk þjóðlendu voru þó ákveðin sunnar á þessu svæði en stefndi hafði dregið kröfulínu sína. Áfrýjendur höfðuðu mál og kröfðust þess að felldur yrði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar að því er varðaði þjóðlendu á landsvæði, sem nefnt hefur verið Brúaröræfi innan tilgreindra marka og viðurkenningar á því að á Brúaröræfum væri engin þjóðlenda. Til vara gerðu þeir sams konar tvíþætta kröfu, sem tók aðeins til austasta hluta landsvæðisins og markaðist af Jökulsá á Jökuldal í austri, Sauðá að vestan og Vatnajökli í suðri. Stefndi krafðist sýknu og lýsti því yfir að hann myndi una því að ekki hefði verið fallist á kröfu hans um norðurmörk þjóðlendu.

Áfrýjendur studdu kröfur sínar einkum við tvö landamerkjabréf fyrir jörðina B frá 4. júlí 1890 og 14. október 1921. Héldu þeir fram að skýra yrði bæði bréfin svo að allt land milli Jökulsár á Fjöllum og Jökulsár á Jökuldal suður að Vatnajökli væri innan landamerkja B og því væri enga þjóðlendu þar að finna. Þá töldu þeir að óbyggðanefnd hefði orðið á mistök með því að virða ekki við meðferð málsins ýmsar reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk þess að fara við úrslausn þess út fyrir þær kröfur og málsástæður sem stefndi tefldi fram fyrir nefndinni. Þannig hefði nefndinni orðið á við skýringu eldra landamerkjabréfsins, þar sem orðið „Jökulsár“ yrði ekki skýrt svo að það ætti einungis við um Jökulsá á Jökuldal heldur tæki það einnig til Jökulsár á Fjöllum. Þessi skýring nefndarinnar væri í andstöðu við málatilbúnað stefnda og nefndinni hefði verið óheimilt að fara út fyrir málsástæðu stefnda sem að þessu lyti. Talið var að þessi staðhæfing áfrýjenda ætti sér enga stoð enda hefði nefndin í reynd fallist á að allt land á norðurhluta svæðisins milli jökulánna tveggja tilheyrði B, sem einnig var byggt á af hálfu stefnda. Þá var talið að ekkert væri fram komið um að annamarkar hefðu verið á starfi nefndarinnar að því er rannsókn málsins varðaði. Úrskurðurinn bæri með sér að hún hefði gert ítarlega leit að gögnum sem gætu varpað ljósi á það hvernig réttindum hefði verið háttað yfir því landsvæði sem um ræddi. Enn fremur væri haldlaus sú málsástæða áfrýjenda að óbyggðanefnd hefði ekki gætt andmælaréttar þeirra varðandi orðskýringu á eldra landamerkjabréfinu og málatilbúnaður þeirra um að nefndin hefði ekki gætt meðalhófsreglu og jafnræðisreglu væri bæði óljós og ekki studdur haldbærum rökum. Áfrýjendur vísuðu einnig til annarra heimilda um eignarréttarlega stöðu deilusvæðisins og nýtingu þess á fyrri tíð, sem styddu að þeir ættu allt hið umþrætta land. Landið hefði verið numið í öndverðu og nýtt eftir það og mótmæltu áfrýjendur að eignarréttur þeirra væri á einhvern hátt takmarkaður. Að auki báru þeir fyrir sig hefð. Stefndi hélt því fram að landamerkjabréfin fælu ekki í sér afmörkun á landi B til suðurs og að áfrýjendur gætu því að þessu leyti ekki byggt neinn rétt á þeim. Þá væri ósannað að landið hefði verið numið í öndverðu. Aðrar heimildir en landamerkjabréf styddu ekki tilkall þeirra til beins eignarréttar á deilusvæðinu sunnan þeirrar markalínu þjóðlendu til norðurs, sem óbyggðanefnd ákvað.Fallist var á þá niðurstöðu óbyggðanefndar að hvorugt landamerkjabréfið fyrir jörðina B lýsti með skýrum hætti suðurmörkum B, en þar var hvorki vísað til Vatnajökuls í suðri, annarra kennileita né örnefnda, sem lægju sunnan við norðurmörk þjóðlendu, eins og óbyggðanefnd ákvað þau. Tilvísun annars bréfsins til Jökulsár og hins til Jökulsáá fæli ekki í sér afmörkun jarðarinnar til suðurs allt að Vatnajökli eins og áfrýjendur héldu fram. Kröfur þeirra fengju því ekki stoð í umræddum landamerkjabréfum. Reyndi þá ekki sérstaklega á það að stefndi hafði vefengt áreiðanleika yngra bréfsins. Þá taldi Hæstiréttur að engra heimilda nyti við sem bent gætu til þess að umrætt land hefði nokkurn tíma verið háð beinum eignarrétti. Staðhættir og fjarlægð þess frá byggð væru jafnframt þannig að ólíklegt væri að nokkur hluti þess hefði verið numinn. Áfrýjendur hefðu ekki fært fram sönnun þess að skilyrðum eignarhefðar á landinu hefði verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum, sem eigendur B hefðu ásamt fleirum haft af þeim hluta landsins, sem telst gróinn. Var fallist á það með stefnda að þrætulandið, eins og það var afmarkað í úrskurði óbyggðanefndar, væri þjóðlenda og hann sýknaður af kröfum áfrýjenda.

  

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnenda, Stefáns Halldórssonar og Sigvarðar Halldórssonar og málskostnaður felldur niður. Gjafsóknarakostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði og er þar meðtalin þóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 1.494.000 krónur og er virðisaukaskattur meðtalinn í þeirri fjárhæð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.