Áhyggjur af niðurskurði til björgunarmála
Slysavarnafélagið Landsbjörg lýsir þungum áhyggjum af þeim niðurskurði á fjármagni sem ætlað er til reksturs stofnana er sinna öryggis- löggæslu- og björgunarmálum á landinu. Ætla má að slíkur niðurskurður muni valda því að leitað verði í auknu mæli til aðildareininga félagsins sem reknar eru af sjálfsaflafé og hafa orðið fyrir verulegum samdrætti á tekjum í kjölfar þess efnahagsástands er ríkir. Þetta kom fram í ályktun sem landsþing félagsins sendi frá sér um síðustu helgi.
Stjórnvöld eru hvött til þess að standa vörð um það fjármagn sem í málaflokkinn þarf að fara. Um leið vill landsþingið minna á þá möguleika sem felast í þeirri öryggiskeðju sem sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar mynda um landið. Sem áður eru félagar SL reiðubúnir að taka á mót þeim verkefnum sem sinna þarf og samræmast starfsemi björgunarsveita og slysavarnadeilda.
Landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar leggur áherslu á að ekki verði skorið niður rekstrarfé þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands en hún hefur í gegnum tíðina reynst ómetanleg sæfarendum við Íslandsstrendur, íbúum landsbyggðarinnar, ferðafólki og sem öryggistæki félagsfólks í björgunarstörfum.
Þeirri áskorun er því beint til stjórnvalda að tryggja sem best það viðbragð sem aðeins þyrlur geta veitt.