„Internetið er mitt gallerí“

Listamaðurinn – í víðum skilningi þess orðs – Páll Ivan frá Eiðum sýnir um þessar mundir myndlistarverk sín á vegum Menningarstofu Fjarðabyggðar í Þórsmörk í Neskaupstað. Páll Ivan er menntaður í tónlist en vakti ánægju fyrir nokkrum misserum þegar hann hélt úti Fréttunum, kaldhæðnislegri útgáfu af fréttum líðandi stundar, á samfélagsmiðlum. Páll fékk loks nóg af fréttalestri og netlist en sýnir nú verk sín í raunheimum.

„Ég er náttúrulega þjakaður af nístandi sjálfshatri sem ég er að reyna að vinna gegn. Það er hversdagslegur hluti af mér. Það er skrýtið að þegar maður er listamaður þá er maður alltaf að dæla einhverju út. Tónlist, myndlist, ritlist. Ég framleiði mikið og set það allt út í heiminn. Samt er alltaf þessi rödd þarna um að ég sé ömurlegur.

Ég hef séð of mikið af fólki sem röddin stoppar af og það setur ekkert út fyrir framan aðra. Það er sorglegt. Þegar verkið er komið út í heiminn þá myndast samskipti. Einhver segir eitthvað eða man eftir manni.

Það er samt venjulegt að fá engin viðbrögð. Enginn þráir að ég búi til list, í mesta lagi er fólki alveg sama. Ég geri þetta bara innan frá mér.

Þess vegna hefur mér dottið til hugar að verða peppari fyrir skapandi fólk sem er þjakað af nístandi sjálfshatri. Ég hvet alla til að búa eitthvað til. Það má vera lélegur,“ segir Páll Ivan í viðtali við Austurgluggann.

Fundist þægilegra að setja listina á netið


Páll Ívan er menntað tónskáld en hefur fengist við málaralist í rúman áratug. Hann segist nú vera að bræða með sér hvort hann taki skrefið í átt til þess að mála af alvöru frekar en leita í það form til að slaka á. Slíkt þýði að sýna í hefðbundnari sýningarsölum en á vefmiðlum, sem hann hefur mikið notað til þessa.

„Ég hef óvart sýnt minna af listinni minni en ég hef viljað í raunheimum. Internetið hefur verið galleríið mitt. Nú ætla ég að streitast aðeins á móti því. Internetið hentar fyrir sumt. Mig hefur langað að gera myndir sem ganga út á áferð, en til að skynja hana verður að standa fyrir framan verkið. Hún næst ekki á ljósmynd frekar en lykt.

Mér finnst internetið ófullnægjandi en það hefur orðið minn vettvangur út af einhverri taugaveiklun. Mér finnst óþægilegt að sýna og hengja upp, þykir þægilegra að setja þetta bara á netið.“

Upplifir sig valdalítinn og máttlausan gagnvart erfiðleikum fjöldans

Það sem hvað mest hefur komið Páli Ivani í almenna umræðu hérlendis eru Fréttirnar þar sem hann skopstældi fréttir líðandi stundar. Gjarnan tók hann skjáskot af veffréttum og snéri út úr með nýjum fyrirsögnum, myndatexta eða öðru. Páll Ivan byrjaði með Fréttirnar á samfélagsmiðlum 2019 og skemmti landsmönnum í gegnum Covid-faraldurinn. Fréttunum hefur hins vegar fækkað síðustu mánuði.

„Ég missti húmorinn um það leyti sem innrásin í Úkraínu hófst. Ég veit ekki hvort það var beinlínis vegna þeirra en ég nennti ekki lengur að skoða fréttir. Mér fannst allt hræðilegt og ekkert fyndið við þær lengur,“ segir hann. Þegar hann er spurður hvort ekki sé enn frekari þörf fyrir móteitri með skopi á slíkum tímum svarar hann: „Það eru alltaf erfiðleikar. Gleðilega, hressandi sýn vantar ekkert frekar nú en vanalega.“

En finnst Páli Ivani frá Eiðum fréttirnar almennt vera neikvæðar? „Það er dæmigert að talað sé um það sem er mjög neikvætt eða mjög jákvætt og þá sjaldnar hið jákvæða. Ef maður skoðar ekki fréttir heldur lifir bara sínu lífi þá er það tiltölulega hlutlaust eða almennt jákvætt. Mér finnst þessi hlutföll skekkjast í fréttunum. Þar koma saman erfiðleikar margs fólks sem maður fær framan í sig þannig að maður upplifir sig valdalítinn og máttlausan. Ég get ekkert gert en samt er þetta hér.“

Leysti erfiðar spurningar með að kenna sig við Eiða


Páll Ivan er fæddur í Króatíu árið 1981 en fluttist níu mánaða til Íslands og hefur síðan búið víða um landið. Þótt hann kenni sig við Eiða er það ekki sá staður sem hann hefur búið lengst á.

„Ég held það komi frá rótleysinu. Ég flutti oft sem barn og fannst spurningarnar um hvaðan ég kæmi eða hverra manna ég væri erfiðar. Annað hvort þurfti ég að gefa hálftíma langt svar eða beina athyglinni annað. Einhvern tímann kynnti einhver mig sem Pál Ivan frá Eiðum og síðar nefndi vinur minn að þetta væri nafn sem ég gæti tekið mér.

Þar með leystust vandamálin með spurningarnar en líka innra með mér að þurfa að kenna mig við ákveðinn stað. Af öllum stöðum sem ég hef búið á eru Eiðar það sem er mest heima í mínum huga. Þarna er fjölskyldusetrið okkar.

Sýningin í Þórsmörk í Neskaupstað stendur til 1. júlí.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.