Konan sem kom með menninguna í sveitina

Oddný á Gerði verður í öndvegi haustþings Þórbergsseturs að Hala í Suðursveit sem haldið verður á laugardag. Þórbergur Þórðarson hampaði henni sem konunni sem hefði komið með menninguna í Suðursveit. Út af henni er kominn stór frændgarður sem dreifist víða um Austfirði.

„Bræðurnir Þórbergur og Steinþór gerðu hana ódauðlega í verkum sínum. Þórbergur dásamaði hana sem konuna sem kom með menninguna í Suðursveit og að með dauða hennar hefði skærasta ljós sveitarinnar slokknað,“ segir Þorbjörg Arnórsdóttir, forstöðumaður Þórbergsseturs.

Hún lýsir Oddnýju sem mikilli menningarkonu á tíma þar sem karlmenn voru ráðandi í félagslífi. Hún hafi verið eina konan í Suðursveit um miðja nítjándu öldina sem kunni að skrifa og hún hafi kunnað Snorra-Eddu utan að.

„Hún fór á milli bæja til að segja sögur með vasapela eins og karlarnir. Hún kvað rímur, var lagviss og söng auk þess að kunna fjölda ljóða,“ segir Þorbjörg. Oddný lést á 96. aldursári árið 1927.

Að manni sínum látnum var það Oddný sem hélt búinu gangandi með stuðningi barna þeirra en þau urðu 11 talsins. Sum þeirra bjuggu um lengri eða skemmri tíma á Austfjörðum og þar búa því margir afkomendur Oddnýjar.

„Steinn Jónsson, sonur hennar var kennari víða á Austurlandi. Annar sonur, Sveinn Jónsson, var bóndi á Fagradal í Vopnafirði. Við fáum reglulega afkomendur hennar að austan í heimsókn hingað,“ segir Þorbjörg.

Málþingið hefst í Þórbergssetri klukkan ellefu á laugardagsmorgun. Það verður einnig aðgengilegt í streymi í gegnum Facebook-síðu setursins. Á málþinginu verður saga Oddnýjar meðal annars sett í samhengi við aðrar mennta- og menningarkonur og samfélagið í sveitunum frá hennar tíma.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.