Læknafélag Íslands ályktar um mál yfirlæknis

Ályktun stjórnar Læknafélags Íslands vegna deilu yfirstjórnar HSA og yfirlæknis við stofnunina:   Stjórn Læknafélags Íslands lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem upp er komin á Austurlandi vegna deilna yfirstjórnar HSA og yfirlæknis við stofnunina. Það er áhyggjuefni þegar viðkvæm deiluefni eru rekin í fjölmiðlum og getur leitt til þess að torvelda leiðina að lausn vandans. Það er sérstakt áhyggjuefni þegar deila stjórnenda heilbrigðisstofnana við heilbrigðisstarfsmenn bitnar á sjúklingum.

lknir.jpg

 

 

 

Stjórn Læknafélags Íslands minnir á þá grundvallarreglu að hver maður skuli teljast saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð með dómi, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá vekur stjórn Læknafélagsins athygli á því að umboðsmaður Alþingis hefur í nýlegu áliti sínu, 5142/2007, kveðið upp úr með það, að ummæli forstjóra sem handhafa opinbers valds um mögulega sekt starfsmanns af refsiverðri háttsemi megi ekki lýsa afstöðu hans án þess að staðhæfingin hafi verið staðfest með dómi í sakamáli. Skv. eftirprentunum úr fréttatímum ljósvakamiðla hefur þessi grundvallarregla verið brotin gegn félagsmanni í Læknafélagi Íslands.

 

Stjórn Læknafélags Íslands hvetur deiluaðila til að leita leiða til lausnar með hagsmuni íbúa og skattgreiðenda að leiðarljósi. Til að það megi verða eru allir málsaðilar hvattir til að leggja af opinbera umfjöllun um málið meðan það er til úrlausnar.

 

 Kópavogi, 11. maí 2009

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Læknafélags Íslands

Birna Jónsdóttir

formaður

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.