Nýtt tónverk eftir Charles Ross frumflutt í Skotlandi
Nýtt tónverk eftir Héraðsbúann dr. Charles Ross verður frumflutt á tónleikum í Aberdeenskíri í Skotlandi annað kvöld. Tónverkið er innblásið af Hallormsstaðaskóg.Tónverk Charles kallast „Nýi skógurinn“ (The New Forest) og er innblásið af Hallormsstaðarskógi. Þar bjó hann áður, kenndi tónlist og vann í skóginum. Í frétt á vef Háskólans í Aberdeen segir frá því að í skóginum sé bæði fura og birti, líkt og skógunum í skosku hálöndunum.
Þrír nemendur og fyrrum kennarar við tónlistardeild skólans standa að tónleikunum. Aðalatriði dagskrárinnar eru ný verk þeirra sem fjalla um breytingar á náttúru svæðisins.
Verkið „On a Wing and A Prayer“ er samið af Joe Stollery, sem lauk nýverið doktorsnámi í tónsmíðum. Með honum er faðir hans, Pete, sem kenndi í skólanum í meira en þrjá áratugi.
Það er hins vegar fiðluleikarinn Katherine Wren sem er með Íslandstenginguna, en hún og Joe kynntust í háskólanum. Hún hefur spilað með Konunglegu skosku sinfóníuhljómsveitinni frá árinu 1998 en árið 2016 stofnaði hún Nordic Viola, hóp sem sérhæfir sig í tónlist frá Norður Atlantshafi. Charles tengist inn í þann hóp. Þau Katherine hafa spilað saman meðal annars í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði og Sláturhúsinu á Egilsstöðum.
Á heimasíðu Nordic Viola ritar Katherine að hún hafi beðið Charles um að skrifa nýtt verk innblásið af austfirskum skógum fyrir tónleikana á morgun. „Já – þið lesið rétt – það eru tré á Íslandi,“ skrifar hún og bætir við að hún njóti þess að dvelja innan um birkiskógana á Egilsstöðum.
Hún mærir þar tónsmíðahæfileika Charles og verkið sem hún lýsir sem fögru en líka krefjandi í flutningi.
Charles hefur áður samið verk sem tengjast skóginum, þeirra trúlega þekktast Keðjusagarblús sem fluttur var á Skógardeginum mikla árið 2015.