Sjóarasigur á ÍR

Fjarðabyggð vann ÍR 4-3 í æsilegum leik á Eskifjarðarvelli á föstudagskvöld. Þjálfari Fjarðabyggðar sagði að það hefði verið ólöglegt að tapa fyrir Breiðholtsliði í upphafi sjómannadagshelgar. Fleiri leikir voru spilaðir um helgina. ImageGuðmundur Andri Bjarnason kom Fjarðabyggð yfir á 18. mínútu eftir fyrirgjöf frá Andra Magnússyni. Forskotið entist ekki lengi því ÍR-ingar jöfnuðu mínútu síðar. Eftir það var allur vindur úr Fjarðabyggðarliðinu í hálfleiknum og Breiðhyltingar uppskáru verðskuldað annað mark rétt áður en flautað var til leikhlés.

Fjarðabyggðarliðið kom ólíkt ákveðnara til seinni hálfleiks. Tvær hornspyrnur Jóhanns Ragnars Benediktssonar skiluðu nánast nákvæmlega eins mörk. Jóhann sendi fyrir frá hægri á nærstöngina þar sem Haukur Ingvar Sigurbergsson fleytti boltanum inn á teiginn þar fyrst Grétar Örn Ómarsson og síðar Guðmundur Andri köstuðu sér niður og sendu boltann í netið.
Gestirnir jöfnuðu úr aukaspyrnu en heimamenn höfðu fundið blóðbragðið og héldu áfram. Fyrst björguðu ÍR-ingar á línu eftir þriðju hornspyrnuna áður en Ágúst Örn Arnarson, þremur mínútum fyrir leiksleik, ýtti boltanum í netið fetir að Stefán Þór Eysteinsson hafði sloppið inn fyrir vörn ÍR.

„Það er ekki hægt að láta lið úr Breiðholti koma hér í upphafi sjómannadagshelgar og vinna svæðið. Það er ólöglegt,“ sagði Heimir Þorsteinsson, þjálfari Fjarðabyggðar, í samtali við Austurgluggann eftir leikinn. Hann var þakklátur fyrir „sjóarasigur“ á ÍR þar sem liðið hefði komið til baka eftir arfaslakan fyrri hálfleik.
„Við ætluðum að halda svæðum og ráðast síðan að þeim þegar þeir kæmu fram yfir miðju og sækja hratt á þá. Við gerðum það ekki og þá fer oft illa. ÍR-ingar eru miklu betri fótboltamenn en ég reiknaði með og sóknarlína þeirra einhver sú skipulagðasta og erfiðasta sem ég hef lent í lengi. En strákarnir eru algjör vinnudýr þegar þeir vilja það og það skilaði sigrinum.“

Heimir var ánægður með frammistöðu Guðmundar Andra sem skoraði tvö mörk. „Hann hefur lent í meiðslum og upp við vegg með sína stöðu. Við vitum hvað í honum býr og hann sýndi það í kvöld.“

Í fyrri hálfleik vakti athygli að Heimir kallaði „ekki rangstaða“ þegar aðstoðardómarinn flaggaði rangstöðu á sóknarmann ÍR. „Ég var að skamma strákana fyrir að vera ekki með hausinn í lagi. Þeir hættu strax. Maðurinn var farinn inn og var ekki rangstæður. Maður gerir ýmsa vitleysu í leikjum.“

ImageHöttur gerði markalaust jafntefli við Hamar í Hveragerði. Fyrstu fjórir deildarleikir liðsins hafa allir endað með jafntefli.

Nokkuð var skorað í 3. deild karla en tveir leikir voru spilaðir á Austfjörðum. Einherji vann Dalvík/Reyni á Vopnafirði 3-2. Heimamenn komust yfir á sjálfsmarki en lentu síðan undir 1-2. Davíð Örvar Ólafsson og Marteinn Þór Vigfússon skoruðu og tryggðu Einherja sigurinn.

Á Fáskrúðsfirði vann Huginn Leikni 2-4 en öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik. Ragnar Már Konráðsson, Rúnar Freyr Þórhallsson, Brynjar Skúlason og Baldur Smári Elfarsson skoruðu mörk Hugins en Vilberg Marinó Jónasson jafnaði tvisvar fyrir Leikni.

Í 1. deild kvenna tapaði Fjarðabyggð/Leiknir 5-0 fyrir Selfossi á útivelli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.