SúEllen 40 ára og minningartónleikar Ingvars Lundberg

Hljómsveitin SúEllen fagnar 40 ára afmæli þessa dagana. Laugardaginn næstkomandi mun hljómsveitin koma fram í Bæjarbíó ásamt fleirum á minningartónleikum um Ingvar Lundberg, fyrrum hljómborðsleikara hljómsveitarinnar sem lést síðastliðið sumar aðeins 56 ára gamall.

Á Facebook síðu viðburðarins er sagt frá Ingvari og ferlinum hans sem tónlistarmanns. Þar segir: „Ingvar Lundberg var tónlistarmaður og hljóðhönnuður, þekktastur fyrir hljómborðsleik sinn í SúEllen. Ásamt því að spila á hljómborð í hljómsveitinni SúEllen var Ingvar mikils metinn hljóðhönnuður, sérhæfður í kvikmyndum og margverðlaunaður sem slíkur."

Til þess að minnast Ingvars verða haldnir minningartónleikar í Bæjarbíói laugardaginn næstkomandi, þann 18. mars. Á tónleikunum koma fram vinir og samstarfsmenn Ingvars til að heiðra minningu hans. Allur ágóði tónleikana rennur í minningarsjóð um Ingvar.

Guðmundur Rafnkell Gíslason, söngvari SúEllen, skrifar um afmæli SúEllen og minningartónleikana:

„Auðvitað er ljúfsárt að fagna þessum tímamótum á minningartónleikum um okkar kæra hljómborðsleikara Ingvar Lundberg. Ingvar hefði örugglega vilja fagna þessum áfanga með rokki, róli og glasalyftingum og það ætlum við að gera. Við sjáum ykkur vonandi sem allra flest, því þetta verður rosaleg tónlistarveisla. Tryggið ykkur miða og syngið afmælissönginn með okkur”

Á tónleikunum koma fram: Langi Seli og Skuggarnir, SúEllen, Jón Ólafsson, Dúkkulísur, Guðmundur R, Cell 7 og Kvöldverður á Nesi. Ásamt því verða líka óvænt atriði sem ekki eru auglýst á viðburðinum.

Guðmundur Rafnkell segir að allir flytjendur á minningartónleikunum tengist Ingvari á einn eða annan hátt. Þarna munu koma fram vinir og samstarfsfólk sem hann hefur starfað með í kvikmyndum og minnast hans.

„Þetta á að vera fjör, við lofuðum honum að við myndum halda áfram að hafa gaman af lífinu,” segir Guðmundur.

Guðmundur segir að það sé hugmynd á teikniborðinu að minnast hans með tónleikum í Neskaupstað síðar á árinu en af þeim tónleikum muni allur ágóði einnig renna í minningarsjóð Ingvars.

„Það voru bekkjarfélagar hans frá Neskaupstað úr 66’ árganginum sem stofnuðu minningarsjóðinn og ágóði þessa tónleika verður viðbót í sjóðinn,” segir Guðmundur.

Guðmundur segir að á tónleikunum verði 40 ára afmæli SúEllen fagnað og minnst tíma Ingvars í hljómsveitinni. „Ingvar var í hljómsveitinni næstum alveg frá stofnun, Raggi bróðir hans var hljómborðsleikari fyrst en svo kom Ingvar inn ári seinna og var í hljómsveitinni allan tímann,” segir Guðmundur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.