„Þarf ekki að fara í felur með mat lengur“

Eskfirðingurinn Pétur Marinó Fredericksson er einn þeirra tólf keppenda sem taka þátt í þriðju þáttaröð raunveruleikaþáttarins Biggest Loser Ísland, sem hefst á Skjá einum annað kvöld.


„Þetta byrjaði nú bara sem smá grín. Ég var að horfa á síðustu þáttaröðina með konunni minni og dóttur og þær töluðu um að skrá mig í þáttinn. Svo leið og beið og ég ákvað að skrá mig sjálfur og spurði þær á loka skráningardegi, hvort þær hefðu skráð mig eða ekki. Þær sögðust ekki hafa gert það en ég sagði þeim að ég hefði engu að síður gert það,“ segir Pétur.

Skaut til baka á vinnuveitanda

Pétur Marinó er 43 ára gamall, 4 barna faðir og í sambúð með Eik Elfarsdóttur. Hann var 137,3 kíló þegar hann mætti á Ásbrú og hóf keppni í september.

„Þetta var bara eitthvað sem ég varð að gera, en ég reiknaði alls ekki með því að komast inn, fólk sem ég sagði þetta á meðan á umsóknarferlinu stóð sagði mér ítrekað að ég væri ekki nógu stór.

Ég var búinn að fá skot frá vinnuveitanda um að ég væri orðin stór, hann var búinn að pota í bumbuna á mér og spyrja hvort ég ætlaði ekki að gera eitthvað í þessu. Svo svo þegar ég komst inn var skotið til baka að hann yrði að gefa mér frí og hleypa mér í þetta,“ segir Pétur en bætir við að allt hafi farið fram í góðu og hann finni vel fyrir stuðningnum.

Hefur þyngstur verið 146 kíló

Pétur segist alltaf hafa verið búttaður og hafi byrjað að fitna strax upp úr tólf ára aldri.

„Ég tók mig á um tvítugt og losaði mig við 40 kíló upp á eigin spýtur. Ég náði þó ekki að halda þyngdinni í skefjum nema í þrjú ár og þá fór ég aftur í sama farið.

Pétur segist hafa rokkað mikið í þyng og hefur þyngstur orðið 146 kíló. „Ég hef alltaf tekið mig á annað slagið en hef alltaf verið í þriggja stafa tölu. Ég hef aldrei farið á neinn sérstaka kúr, hef bara tekið mig til og breytt mataræðinu og hreyft mig, mér hefur til dæmis aldrei dottið í hug að fara á Herbalife eða neitt svoleiðis.

Mér þykir matur alveg ofboðslega góður og er matarfíkill, ég geri mér orðið fulla grein fyrir því. Ég er ekki með dellu fyrir nammi eða kóki, heldur á í vandræðum með skammtastæðir, ég vil stóra matarskammta. Ég er menntaður matartæknir þar sem ég lærði meðal annars næringarfræði og rétta samsetningu matar á diskinn, en þegar kom að mér sjálfum gilti allt öðru máli.

Það var líka það sem var að sækjast í með að fara í Biggest Loser - að koma fram sem þessi matarfíkill sem ég og mitt nánasta fólk vissi að ég væri, en ég hef aldrei getað komið fram út á við og viðurkennt það. Mér finnst ég ekki þurfa að fara í felur með mat lengur.“

Vil vera til staðar fyrir fjölskylduna sína

Pétur segist hafa notið mikils stuðnings fjölskyldu og vina. „Við Eik vorum tiltölulega nýbúin að eignast barn og auðvitað þurfti að hagræða hlutunum en ég naut fulls stuðnings. Þetta skipti mig svo miklu máli upp á framtíðina, því ég var ekki á góðri leið. Ég vildi vera til staðar fyrir börin mín og leiða konuna mína inn kirkjugólfið síðar í lífinu.“


Fjórar æfingar á dag

Pétur þekkti engan hinna þátttakendanna en segir hópinn strax hafa orðið sem eina fjölskyldu og mikil samheldni hafi myndast innan hans „Okkur var svo skipt í tvö lið og hópurinn minn var alger eining þar sem allir hvöttu alla áfram og sýndu mikinn stuðning.

Við fórum á fjórar, eins til tveggja tíma æfingar á dag, þannig að þetta var hörkupúl. Maður finnur árangur strax og við vorum mjög hissa í lok fyrstu viku, hve mikið er hægt að missa á ekki lengri tíma.

Þetta var erftitt, bæði andlega og líkamlega. Maður verður hreinlega veikur á fyrstu vikunni þegar líkaminn er að afeitra sig og losa sig við allt sukkið, en svo fór líðanin fljótt upp á við.“

Það er auðvelt að brotna í þessum aðstæðum

Pétur segir það ekki hafa verið mikið mál að vera innan um myndavélarnar. Aðspurður um hvort áhorfendur fái að sjá mikið drama segir hann;

„Maður mátti samt ekki hósta út í horni, þá voru þeir mættir til þess að ná mómentinu, enda að búa til sjónvarpsefni.

Þetta verður allt öðruvísi sería en eitt og tvö, þetta er allt annar hópur. Eflaust hafa allir átt sitt móment og „breaking point“ – en fólk þarf að gera sér grein fyrir því að þegar er búið að slíta þér út líkamlega og pota í þig andlega er mjög auðvelt að brotna, en þetta kemur allt í ljós.“

Náði settu marki og rúmlega það

Þrátt fyrir að þættirnir séu að fara í loftið er heimakeppnin enn í fullum gangi og lýkur ekki fyrr en í beinni útsendingu þann 7. apríl.

„Þrátt fyrir að hafa liðið mjög vel á Ásbrú fannst mér gott að komast heim og það voru mikil fagnaðarlæti. Mér fannst erfitt að vera frá fjölskyldunni minni og ég saknaði þeirra mjög.

Það voru vissulega einnig viðbrigði að fara úr þessu mikla utanumhaldi og fara að samræma æfingar við vinnu, fjölskyldu- og félagslíf. En, það hefur gengið vel og ég næ einni æfingu daglega, helst tveimur. Ég er mjög ánægður með minn árangur, ég setti mér ákveðin markið áður en ég fór og náði þeim og meiru til,“ segir Pétur.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar