Vistvæn innkaup hjá Fljótsdalshéraði
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti í lok síðasta árs innkaupastefnu og innkaupareglur fyrir sveitarfélagið, í samræmi við lög um opinber innkaup nr. 84/2007. Umhverfisáherslur og vistvæn innkaup eru einn þáttur reglnanna.
Innkaupastefnan var unnin með hliðsjón af þörfum sveitarfélagsins, en innkaup og innkaupaaðferðir sveitarfélagsins voru tekin til skoðunar í því skyni.
Á vef sveitarfélagsins, www.fljotdsdalsherad.is, segir að stefna Fljótsdalshéraðs sé sú að innkaup sveitarfélagsins stuðli að hagkvæmni í rekstri og hvetji um leið til nýsköpunar og framsækinnar þróunar í atvinnulífi, með virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. Innkaupastefnan er í samræmi við framtíðarsýn og stefnu Fljótsdalshéraðs 2007-2027.
Fljótsdalshérað fléttar umhverfisáherslur og vistvæn innkaup inn í innkaupareglur sínar og mun vera fyrsta sveitarfélagið til að gera slíkt með markvissum hætti. Vistvæn innkaup fela í sér margs konar ávinning fyrir kaupandann, fyrir utan það að draga úr umhverfisáhrifum. Vistvæn innkaup geta minnkað rekstrarkostnað, aukið gæði og ekki síst geta vistvæn innkaup verið drifkraftur í nýsköpun og aukið framboð á vistvænum vörum og þjónustu sem nýtist samfélaginu í heild.
Alta, ráðgjafarfyrirtæki, hefur aðstoðað Fljótsdalshérað við þessa vinnu og komu Birna Helgadóttir umhverfisfræðingur og Björg Ágústsdóttir lögfræðingur að því verki.