Að hagræða lýðræðinu!

Við sem höfum búið og starfað í litlum samfélögum þekkjum þau vandamál sem geta komið upp við ákvarðanatöku í hinum ýmsu málum. Fjölskyldu og vinatengsl geta gert ákvarðanir tortryggilegar.

Það má segja að umræðan um eflingu sveitarstjórnarstigsins með sameiningu sveitarfélaga hafi verið hluti af því að komast út úr fámenninu og þar með inn á lýðræðislegri braut. Ákvarðanir sem tengjast vina- og fjölskylduböndum ættu því að heyra sögunni til.

Sveitarfélögum hefur fækkað mikið og má því draga þær ályktanir að stjórnsýslan sé faglegri og ákvarðanir byggðar á grunni reynslu og þekkingar. Markmiðið með breytingunum hlýtur að hafa verið þáttur í því að efla og gera stjórnsýsluna vandaðri, faglegri og hafna yfir gagnrýni.

Óumdeilt þykir að yfirsýn kjörinna fulltrúa yfir samfélagið og nándin við íbúana eru styrkleiki sem mikilvægt er að rækta. Þáttur í að viðhalda því í landfræðilega stóru sveitarfélagi er fjölgun fulltrúa í sveitarstjórnum ásamt því að bæta kjör þeirra.

Þrátt fyrir mikilvægi eflingar sveitarstjórnarstigsins með sameiningu sveitarfélaga er það þó ekki nema hluti af styrkingu byggðar. Þáttur í því er að skapa fjölbreytt störf og bæta þjónustu við íbúanna. Við sem búum á landsbyggðinni leggjum mikið upp úr því að börnin okkar geti sótt sér fjölbreytta menntun sem nýtist þeim velji þau að snúa til baka í heimahagana. Með eflingu sveitarstjórnarstigsins eflist þjónusta sem kallar á fjölbreyttari störf fyrir menntaða einstaklinga. Þá er tæknin orðin þannig að hægt er að stunda vinnu hvaðan sem er. Stór þáttur í því að fá fólk til að búa og starfa í samfélagi byggir á því að íbúar hafi trú á stjórnsýslu og innviðum byggðarlagsins.

Múlaþing varð til við sameiningu fjögurra sveitarfélaga árið 2020. Um fimmþúsund manns búa í hinu nýja sameinaða sveitarfélagi. Miklar breytingar voru gerðar á stjórnsýslu hins nýja sveitarfélags sem þóttu sýna miklar umbætur í lýðræðisátt. Fjölgun sveitarstjórnarmanna var einn þáttur í lýðræðisvakningunni, auk þess sem heimastjórnum var komið á í byggðakjörnunum. Þá var ráðinn sérstakur starfsmaður í þremur af fjórum byggðakjörnum. Má segja að lýðræðisvitundin hafi geislað af nýju sveitarfélagi.

Við sem höfum áhuga á uppbyggingu og vexti okkar nýja sveitarfélags stöldrum við þegar störf eru auglýst. Fyrir um ári var auglýst starf fulltrúa sveitarstjóra á Djúpavogi. Tekið var fram í auglýsingu um menntun og hæfniskröfur að gerð var krafa um háskólamenntun og skipstjórnarréttindi væri kostur. Sennilega er þetta eina sveitarfélag á landinu sem óskar eftir að starfsmaður hafi skipstjórnarmenntun þegar auglýst er skrifstofustarf. Nú ári síðar er þetta sama starf auglýst laust til umsóknar, en ósk um skipstjórnarréttindi og háskólamenntun tekin út. Starfsauglýsing var birt og í framhaldinu var ráðinn í starf fulltrúa sveitarstjóra aðili sem af einhverjum ástæðum smellpassaði inn í nýja starfslýsingu meirihluta sveitarstjórnar.

Með vinnubrögðum sem hér um ræðir er sveitarstjórn að misbjóða okkur íbúum Múlaþings og gera lítið úr lýðræðinu sem er þó grundvöllur þess að hér vaxi og dafni samfélag fyrir alla. Vinnubrögð sveitarstjórnar fá því algjöra falleinkun. Að verða vitni að því að starfslýsingum sé hagrætt eftir því hvaða vinur á að fá viðkomandi stöðu er nánast sorglegt. Hér er jafnframt verið að senda út þau skilaboð að þrátt fyrir að hafa kostað sig til náms, eða að fólk búi að reynslu í starfi, þá víkur það fyrir vinalista sveitarstjórnar. Það liggur við að maður vorkenni þessu vesalings fólki sem hefur ekki meira til málanna að leggja í okkar sveitarfélagi en að hygla vinum sínum.

Í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, sem gott væri fyrir sveitarstjórn Múlaþings að kynna sér, segir meðal annars „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu“.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar