Almannavarnir á Austurlandi

Síðustu árin hefur Almannavanefnd Austurlands unnið markvisst að því að efla almannavarnir í umdæminu. Alvarlegir og stórir atburðir hafa orðið eins og skriður á Seyðisfirði og snjóflóð í Neskaupstað, auk þess sem ofsafengin veður hafa riðið yfir og valdið miklu tjóni. Verkefni viðbragðsaðila hafa verið ærin í þessum aðstæðum og að sama skapi leitt til aukinnar þekkingar okkar allra og reynslu til að takast á við almannavarnaaðstæður.

Vinna hefur verið sett af stað til að bæta enn í þennan reynslubanka almannavarna og er afraksturinn smátt og smátt að koma í ljós. Í desember opnaði ný aðgerðastjórnstöð á Austurlandi og er hún staðsett í húsnæði Björgunarsveitarinnar Héraðs að Miðási á Egilsstöðum, en stjórnstöðin verður formlega tekin í notkun þann 5. janúar nk. Reynslan hefur sýnt að í stærri viðburðum er brýnt að hafa aðstöðu sem þessa þar sem bæði er rými fyrir mannskap og tækjabúnað. Aðstaðan verður í samræmi við þá staðla sem gilda á þessu sviði.

Síðastliðið haust var haldin vinnustofa fyrir viðbragðsaðila á Austurlandi þar sem fulltrúar Veðurstofu og almannavarna fjölluðu meðal annars um ofanflóð, fyrirbyggjandi aðgerðir og fleira. Þar mættu um 80 manns frá viðbragðsaðilum á Austurlandi, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofu og fleirum. Verið er að vinna úr afrakstri vinnustofunnar er mun nýtast ofangreindum í vinnu sinni til framtíðar.

Unnið er að því að efla enn fræðslu hverskonar fyrir viðbragðsaðila á Austurlandi, meðal annars við aðgerða- og vettvangsstjórnun. Þá er unnið að endurskoðun rýmingakorta, boðunar- og viðbragðsáætlana, sem og stefnt að úttekt á búnaðarmálum og að gera áætlun um endurnýjun og kaup ásamt því að efla vettvangsstjórnir. Allt miðar þetta að því að viðbragðsaðilar á svæðinu séu sem best búnir undir hvaða áskoranir sem framtíðin ber í skauti sér.

Á sama tíma vonum við að ekki þurfi að koma til neinna viðbragða almannavarna á næstunni, að veturinn verði mildur og að við getum notið hans til fulls í leik og starfi.

Höfundur er lögreglustjóri á Austurlandi og formaður almannavarnanefndar Austurlands.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar