
Eru tré í Öskjuhlíð meira virði en mannslíf?
Nú undanfarið hef ég reglulega heyrt fréttir af því að flugbraut við Reykjavíkurflugvöll hafi verið lokað vegna trjágróðurs í Öskjuhlíð með tilheyrandi áhrifum á flug og kannski sérstaklega sjúkraflug. Ég hafði þó ekki hugsað neitt sérstaklega út í það að næsti sjúklingur, þar sem hver mínúta skiptir máli, gæti verið ég en það varð þó raunin.
Síðastliðinn þriðjudag var ég í þeim aðstæðum að vera fluttur, alvarlega veikur í sjúkraflug, frá Hornafirði til Reykjavíkur og því vil ég koma með innlegg í umræðuna.
Ég fékk skyndilega mikinn og aðkallandi brjóstverk um hádegi og fór þá á Heilsugæslustöðina á Djúpavogi, mínum heimabæ. Þar fékk ég aðhlynningu frá hjúkrunarfræðingi, sem við blessunarlega erum svo heppin að býr á staðnum. Einnig kom til aðstoðar læknaritarinn en læknirinn sjálfur var staddur á Stöðvarfirði þar sem hann sinnir bæði Stöðvarfirði og Breiðdalsvík, ásamt Djúpavogi.
Læknir ákvað að senda mig strax til Reykjavíkur og var kallaður til sjúkrabíll til þess að flytja mig á Hornafjörð. Sjúkrabílstjórinn ók á þvílíkum hraða að ferðin tók aðeins rúmar 40 mínútur. Þar beið eftir mér sjúkraflugvél til þess að fara í forgangsflug, því grunur lék á því að hér væri um að ræða bráða kransæðaþrengingu og því mikilvægt að koma mér undir læknishendur á Landspítala Háskólasjúkrahúsi eins fljótt og auðið var.
Þegar við nálguðumst Reykjavíkurflugvöll heyrði ég á flugmönnunum og sjúkraflutningamanni um borð að verið væri að meta aðstæður til lendingar í Reykjavík, því óvíst væri hvort hægt væri að lenda þar. Mögulega þyrfti að lenda vélinni í Keflavík og farið að undirbúa sjúkra- og lögreglubíl þar til þess að koma mér á sem stystum tíma á sjúkrahús í Reykjavík, þar sem tilfellið væri mjög alvarlegt. Sem betur fer, tóku flugmennirnir þá ákvörðun að gera allt til þess að lenda vélinni í Reykjavík og eiga þeir skilið sérstakt hrós fyrir fagmennsku sína. Ég hins vegar, get ekki hugsað mér að fljúga aftur við þessar kringumstæður.
Í þessu tilfelli gekk allt saman upp og ég var kominn í þræðingu stuttu eftir lendingu í Reykjavík og er nú að jafna mig á spítalanum. Ef við hefðum þurft að lenda í Keflavík, hefði það getað munað allt að því einum og hálfum tíma og varla hægt að hugsa til þess hvaða afleiðingar sá tími hefði haft.
Það er staðreynd, að hver einasta mínúta skiptir máli og það átti svo sannarlega við í mínu tilfelli. Öryggi sjúklinga verður alltaf að vera í forgangi.