
Reykjavíkurflugvöllur – tapað stríð
Eftir að hafa fylgst með umræðu árum saman um okkar ágæta samgöngumannvirki, Reykjavíkurflugvöll, hefur mér orðið æ ljósara að stríð landsbyggðarfólks við þéttbýlinga á suðvesturhorninu er tapað. Vera má að einstök orrusta vinnist en til lengri tíma litið hljótum við sem búum í öðrum landshlutum að missa þessa nútímalegustu samgönguleið við höfuðborgina okkar.Skreppum 70 ár aftur í tímann og komum til höfuðborgarinnar eftir algengustu leiðinni, strandferðum.
Við stígum á land í Reykjavíkurhöfn. Fátt um einkabíla. Í þægilegu göngufæri við Kalkofnsveg bíða strætisvagnar sem skjóta þér á áfangastað. Brottfarir á 10 til 15 mínútna fresti. Ögn lengra, við Hverfisgötuna bíða leigubílar boðnir og búnir til hvers konar þjónustu. Ef leiðin liggur áfram út úr höfuðborginni göngum við ögn lengra. Nálægt Lækjargötunni er BSÍ þaðan sem eru rútuferðir út úr bænum, austur fyrir fjall, upp í Borgarfjörð eða á Suðurnes.
Íslendingar höfðu aðgang að samgöngumiðstöð í höfuðborginni sinni og töldu sjálfsagt mál.
Svo líður tíminn.
Flugvöllurinn tekur við af Reykjavíkurhöfn. Hver sem orsökin er er ekki ein flugstöð við þennan ágæta flugvöll, heldur tvær, hvor sínum megin við völlinn. Sjálfur hef ég upplifað þau skemmtilegheit að fá mig fluttan þvert yfir völlinn til að ná flugi til Egilsstaða, nýkominn fljúgandi að vestan. Tíminn til að aka hálfhring í kringum völlinn í Vatnsmýrinni var of skammur, hefði misst af vélinni hefði ég reynt það. Veit ekki betur en að þetta tveggja flugstöðva fyrirkomulag sé enn í gildi.
BSÍ flutti í nýja umferðamiðstöð ekki langt frá Vatnsmýrinni, þar sem hægt hefði verið að hafa allsherjar umferðarmiðstöð þjónandi flugfarþegum, áætlunarferðir á Keflavíkurflugvöll og miðstöð strætisvagna í Reykjavík.
En þetta var greinilega ekki stefna þeirra sem stjórna Reykjavíkurborg. Hringbrautin, sem lá norðan við þetta nýja mannvirki var flutt suður fyrir umferðamiðstöðina og hún þannig slitin úr tengslum við flugvöllinn. Draumurinn um allsherjar samgöngumiðstöð var þar með dauður hafi hann nokkurn tíma vakað fyrir nokkrum manni.
Og hvað með Strætó? Um svipað leyti var sú samgöngumiðstöð flutt úr Kvosinni, en hvert? Ekki í þessa umferðamiðstöð, heldur inn á Hlemm. Á Hlemm á enginn maður erindi, nema hann þurfi að hitta lögguna, sem fáir gera af fúsum og frjálsum vilja. Strætó við umferðamiðstöðina, sem jafnframt hefði þjónað flugsamgöngum hefði styrkt Reykjavík sem höfuðborg og samgöngumiðstöð allra landsmanna stórkostlega. Þetta tækifæri er nú úr greipum gengið.
Svo þurftu menn að komast í flug til útlanda. Hvar byrjaði sú ferð? Við umferðamiðstöðina? Aldeilis ekki. Áætlunarferðir til Keflavíkur tengdust Hótel Loftleiðum, sem að vísu var í nágrenni við aðra af fyrrnefndum flugstöðum.
Niðurstaða: Það er mjög flókið að hagnýta sér Reykjavík sem samgöngumiðstöð og best að hætta að ræða það sem möguleika til lengri framtíðar litið.
Því er best að skoða aðra möguleika.
Við búum svo vel að eiga víðlent undirlendi fyrir austan fjall, sem svo er kallað. Þar er pláss fyrir óteljandi flugvelli án þess að einn slíkur þyrfti að ógna byggð. Þar er líka vaxandi höfn í Þorlákshöfn og á Selfossi þroskast nú sem óðast ýmis þjónusta ætluð öllum landsmönnum.
Það er ekki langur tími til ársins 2040 þegar Reykjavíkurflugvöllur verður endanlega sjálfdauður. Því ekki seinna vænna að strika yfir það sem framtíðarmöguleika að landsbyggðarmenn komist flugleiðis til höfuðborgar sinnar þá leiðina. Því er ekki um annað að ræða en að hefja skipulagningu öflugs þjónustusvæðis á Árborgar/Ölfussvæðinu. Þróun í þessa átt er þegar hafin og störf án staðsetningar styðja hana.
Eitt að síðustu. Ég veit ekki betur en að mannvirkið Reykjavíkurflugvöllur sé í eigu þjóðarinnar allrar. Á Íslandi er eignarrétturinn heilagur, það er að segja ef um einkaeign er að ræða. Aðra sögu er að segja um samfélagslegar eignir. Umboðsmönnum okkar á Alþingi eru mislagðar hendur við að gæta þeirra, og skal ég ekki fara um það mörg orð, né nefna dæmi. Hitt er á hreinu að ef einstaklingur ætti Reykjavíkurflugvöll, myndi sá hinn sami gera stóra bótakröfu ef stjórnvöld myndu spilla honum, hvað þá að gera hann óstarfhæfan. Þær bætur myndu að minnsta kosti myndi duga fyrir nýjum jafngóðum á framtíðarsvæði ásamt flugstöð og öllum græjum.
Ég hef hins vegar ekki heyrt fjárgæslumenn ríkissjóðs æmta í þá veru að þjóðin ætti neina heimtingu slíku, jafnvel þó að Reykjavíkurborg ætli sér að selja Vatnsmýrarlóðirnar á verði sem líklega dugar vel fyrir slíku mannvirki annars staðar á landinu.
Til lengri framtíðar litið sýnist mér að Reykjavík muni hætta að vera höfuðborg alls Íslands. Hún verður höfuðborg Reykjavíkur og aðrir Íslendingar hljóta að krefjast þess að fá eðlilegan aðgang að mikilvægri þjónustu annars staðar, þaðan sem leiðir liggja til allra átta, (líka til Reykjavíkur).