Jólahugvekja 2023

Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, yrkir um ástandið í heiminum við jólin 2023.

Upp yfir heiðina mjakast máninn,
myrkrið í hlíðunum dvínar um stund,
uns skýjanna bólstrar byrgja það ljós.
Við bensínstöðina blaktir fáninn.
Börnin renna á skautum um grund.
Lækurinn ryðst gegnum ísbönd að ós.

Í fjarlægu landi er friðurinn rofinn.
Feður og mæður þar gráta sín börn
sem grófust í gærdagsins sprengjuárás.
Desember dimman þar blóði er ofin.
Drónar allt vakta sem hungraður örn,
þá við kaupum bækur og bragðgóða krás.

Mánasigð krossinn á kirkjunni lýsir.
Kvöldið í norðri er stillt og rótt,
en eldtungur fljúga um frelsarans slóð.
Hvar mannanna valdbeiting heiftina hýsir
og hatrið það vex í sálunum skjótt
þegar tárin drjúpa í barnanna blóð.

Á Bethlehemsvöllum með angist og ótta
andi jólanna er horfinn í reyk,
fjölskyldur flýja og leita í skjól.
Minnast þess skulum að forðum á flótta
í faðmi sér María Jesú bar smeyk
og þess vegna höldum við hátíðleg jól.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar