Viljayfirlýsing landsbyggðarfjölmiðla til samstarfs og áskorun til menningar- og viðskiptaráðherra

Miklar breytingar hafa orðið á rekstrarumhverfi fjölmiðla undanfarin ár með þeim afleiðingum að rekstur margra héraðsfréttamiðla er kominn að þolmörkum. Má þar nefna breyttan fjölmiðlalestur yngra fólks, breytingar á auglýsingamarkaði, hærri póstburðargjöld og hækkun verðlags. Auglýsingar hafa í vaxandi mæli ratað á erlenda samfélagsmiðla og streymisveitur.

Á sama tíma er hlutverk landsbyggðarmiðlanna fyrir sitt nærumhverfi óumdeilt því þeir sinna aðhaldi, upplýsingamiðlun og söguskráningu fyrir sín svæði sem aðrir fjölmiðlar ná ekki að sinna.

Undanfarin ár hefur mikil umræða átt sér stað um stuðning hins opinbera við einkarekna fjölmiðla. Frá árinu 2020 hefur verið veittur stuðningur samkvæmt ákvörðun Alþingis upp á 370-470 milljónir á ári. Sá stuðningur hefur hjálpað og í einhverjum tilfellum lengt lífdaga sumra miðla en hann hefur því miður ekki dugað til að bæta eiginfjárstöðu útgáfufyrirtækjanna.

Miðað við fjárlög ársins 2024 eru 700 milljónir áætlaðar til að styðja einkarekna fjölmiðla. Hvernig er ekki nánar skilgreint í fjárlögunum. Þess vegna skorum við neðangreind, ritstjórar og útgefendur héraðsfréttamiðla, á viðskipta- og menningarmálaráðherra að veita allri þessari upphæð í árlegan rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla fyrir árið 2023.

Aukinn beinn stuðningur hins opinbera er fjölmiðlum okkar lífsnauðsynlegur auk þess sem íslenska ríkið á enn langt í land með að styðja við einkarekna fjölmiðla eins og gert er á Norðurlöndunum.

Þá skorum við á ráðherra að setja á laggirnar starfshóp til að leita leiða og móta tillögur til að styrkja tilverugrundvöll héraðsfréttamiðla. Við lýsum okkur reiðubúin til að skipa fulltrúa í slíkan starfshóp, enda hefur forsvarsfólk nokkurra rótgróinna héraðsmiðla síðustu vikur rætt saman um tækifæri til nánara samstarfs á breiðum grundvelli.

Gunnar Gunnarsson, Austurfrétt/Austurglugginn
Gunnar Níelsson, Vikublaðið
Magnús Magnússon, Skessuhorn
Ómar Garðarsson, Eyjafréttir
Páll Ketilsson, Víkurfréttir
Tryggvi Már Sæmundsson Eyjar.net

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.