Um eyðslu ferðamanna af skemmtiferðaskipum í Múlaþingi
Fyrir viku birti Austurfrétt frétt um tekjur af skemmtiferðaskipum og farþegum þeirra. Þar er réttilega byggt á þeim fáu forsendum sem eru fáanlegar. Það er eitt af stóru verkefnunum innan ferðaþjónustunnar, ekki síst þegar kemur að skemmtiferðaskipunum, að afla gagna svo við höfum réttar forsendur.Í fréttinni á Austurfrétt kemur tildæmis fram að eyðsla ferðamanna af skemmtiferðaskipum á Seyðisfirði, Eskifirði og Djúpavogi séu aðeins rúmar 4 þúsund krónur. Ég hjó eftir þessu og sem fyrrverandi bæjarstjóri á Seyðisfirði og núverandi atvinnu- og menningarmálastjóri Múlaþings vissi ég að þótt rétt sé vísað í tölurnar samkvæmt skýrslu Reykavík Economics sem unnin var fyrir Faxaflóahafnir eru tölurnar samt sem áður ekki réttar. Þetta eru hins vegar einu fyrirliggjandi tölurnar sem við ráðum yfir.
Reykjavík Economics byggði sínar tölur fyrir Múlaþing á þremur útgjaldakönnunum sem skiluðu eftirfarandi tölum:
Skipafarþegar í Reykjavík 27.912 kr.
Skiptifarþegar í Reykjavík 78.462 kr.
Meðalútgjöld á Akureyri upp á 14.082 kr.
Meðalútgjöld á Húsavík upp á 15.624 kr.
Meðalútgjöld á Siglufirði 4.210 kr.
Aðrar hafnir með meðalútgjöld á við Siglufjörð (4.210 kr.), nema Hafnarfjörður sem var með meðalútgjöld á við Reykjavík (27.912 kr.)
Siglufjörður heimfærður á Seyðisfjörð
Með öðrum orðum var í tilfelli Seyðisfjarðar miðað við Siglufjörð sem er með lægstu tölurnar, enda ekki betri gögn um eyðslu meðal ferðamannsins fyrirliggjandi. Þetta þýðir auðvitað ekki að þetta sé eyðslan í Múlaþingi því það eru einfaldlega ekki til gögn um hana. Markmið Reykjavík Economics var einfaldlega að vera með hóflega áætlun svo ekki sé hægt að tala um ofmat í efnahagslegum áhrifum frá skemmtiferðaskipum.
Þá má einnig taka fram að farþegaferjan Norræna er ekki með inni í tölunum á Seyðisfirði. Norræna ætti að teljast með því hún er farþegaskip sem að stórum hluta flytur allt að 1200 manns fram og til baka (2400 báðar leiðir ef skipið er fullt) yfir sumartímann. Margir þeirra gista á Seyðisfirði og Egilsstöðum daginn fyrir, eða í nokkra daga, áður en haldið er heim aftur, ýmist á hóteli eða tjaldsvæði með húsbíla. Það eru talsverð fjárhagsleg áhrif af henni bæði hér á Seyðisfirði og Egilsstöðum sem við þekkjum og vitum af.
Niðurstaðan er því sú að við þurfum og ættum að leggja í þá vinnu að afla gagna svo við áttum okkur á hvernig landið liggur hvað tekjur af skemmtiferðaskipum og farþegum þeirra varðar. Það eru nefnilega líka góðar vísbendingar í skýrslu Reykjavík Economics um að tekjur á Íslandi af þessum hópi ferðamanna séu meiri en í nágrannalöndum okkar, m.a. vegna þess að til Íslands kemur mun stærra hlutfall lúxus- og leiðangursskipa.
Sjö atriði sem skipta máli við mat á verðmæti farþega úr skemmtiferðaskipum
En það er fleira sem skiptir máli þegar mat er lagt á þennan hluta ferðaþjónustunnar. Ég nefni hér sjö þætti sem skipta miklu máli:
1. Skemmtiferðaskipafarþegar velja sér fyrst ferð með skemmtiferðaskipi og svo áfangastað. Þetta er frábrugðið því sem gerist til dæmis þegar ferðamenn kaupa sér flugferð. Með öðrum orðum þá er andlag ferðarinnar í raun skemmtiferðaskipið. Þetta þýðir að þessir farþegar eru hrein viðbót í ferðaþjónustunni sem annars kæmi ekki til landsins. Þeir myndu sem sagt ólíklega velja að fljúga til Íslands ef ekki er hægt að sigla þangað þar sem ferðin í skipinu er andlagið. Þetta þýðir einnig að ferðamaðurinn er að koma á þeim forsendum að kynnast áfangastaðnum og þar skiptir miklu máli að skemmtiferðaskipin eru eina tryggingin fyrir því að ferðamenn fari eitthvað annað en á suðvesturhorn Íslands. Þetta er því ein besta leiðin til uppbyggingar ferðaþjónustu á Íslandi því stórt hlutfall farþega af skemmtiferðaskipum kemur aftur síðar í lengri ferð með flugi til að kynnast áfangastaðnum betur. Í slíkri ferð er andlag ferðarinnar áfangastaðurinn. Þetta skiptir ferðaþjónustu á Austurlandi miklu máli því við erum eins langt frá Leifsstöð og hugsast getur. Það vinnur með okkur að þeir gestir sem koma með flugi hafi ef til vill komið til okkar áður með skipi.
2. Ísland er í óvenjulegri stöðu miðað við önnur lönd, samkvæmt skýrslu Reykjavík Economics sem unnin var fyrir Faxaflóahafnir, hvað það varðar að hingað kemur eins og áður segir óvenju hátt hlutfall lúxusfarþega og leiðangursskipa miðað við önnur lönd. Þetta þýðir að neysla ferðamannsins í landi lýtur allt öðrum lögmálum hér en í nágrannalöndunum, hvað þá fjarlægari löndum.
3. Samkvæmt áðurnefndri skýrslu eru þeir skipafarþegar sem við fáum til Íslands á meðal verðmætustu ferðamanna sem koma til Íslands, og hvílir það að stórum hluta á þeirri staðreynd að lúxus- og leiðangursskip eru svona stórt hlutfall af skipakomum til Íslands.
4. Hafnarmannvirki hafa oft verið byrði á sveitarfélögum en eru það ekki núna. Án tekna hafnarinnar af farþegaflutningum yrði mun erfiðara fyrir sveitarfélög að standa undir framkvæmdum á hafnarsvæðum víða um land. Dreifing ferðamanna um landið yrði allt önnur en hún er í dag á sama tíma og þjónusta sem íbúar nýta yrði mun lakari vegna minni viðskipta ef farþegaflutninga með skipum nyti ekki við.
5. Skemmtiferðaskipin verða heldur ekki fyrir áhrifum af neikvæðum fréttum í erlendum fjölmiðlum vegna eldgosa. Þau eru mikilvæg til að jafna sveiflur á móti fluginu og nauðsynleg fyrir þjóð sem býr á eyju og reiðir sig að miklu leyti á ferðaþjónustu. Ekki síst skipta þau máli fyrir landsbyggðina vegna þeirrar tryggingar sem felst í því að skip stoppa víða um landið sem flugvélar gera sjaldnast. Við vitum ekki til þess að alþjóðaflug stoppi t.d. í Hrísey, Grímsey, Djúpavogi og Borgarfirði Eystri.
6. Það er því ljóst, hvað Múlaþing varðar, að það eru farþegatekjur sem eru að skila plús í höfnum Múlaþings. Til viðbótar við þær tekjur kemur eyðsla ferðamanna í landi sem er mjög mismunandi eftir því hvaða afþreying og þjónusta er í boði á hverjum stað. Ekki er hægt að ganga út frá því að ferðamaður eyði sömu krónutölu á öllum áfangastöðum.
7. Tekjur af skemmtiferðaskipum á Seyðisfirði árið 2022 voru 199 milljónir eða 57% af tekjum hafnarinnar. Aflagjöld, vörugjöld og aðrar tekjur voru 153 milljónir. Með Norrænu eru tekjurnar samanlagt 75% af tekjum hafnarinnar eða 263 milljónir bara á Seyðisfjarðarhöfn af farþegaflutningum.
Nýja könnun vantar á skipafarþegum á Austurlandi
Það hefur ekki verið kannað hér á Seyðisfirði eða Djúpavogi hvað farþegar skilja eftir. Mín tilfinning, allavega hér á Seyðisfirði þar sem ég bý auk þess að vera markaðsstjóri Seyðisfjarðarhafnar frá 2006, er að eyðslan sé mun meiri heldur en á Siglufirði.
Við höfum verið lengi í þessum bransa og erum með þróaða þjónustu við skemmtiferðaskipin. Þjónustuaðilum hefur fjölgað talsvert á Seyðisfirði og við erum að fá 100 komur með um 85.100 farþega í ár, mikið af þeim eru nokkuð stór skip. Norræna er þar fyrir utan. Farþegar skemmtiferðaskipanna eru að kaupa nokkuð dýrar skoðunarferðir, bátsferðir, umfangsmiklar veislur með mat og lifandi tónlist. Sem dæmi má nefna að eitt 900 farþega skip kaupir slíkt fyrir alla farþegana og myndi því lyfta meðaltalseyðslunni fyrir Seyðisfjörð allhressilega. Þá fara farþegar í golf, auk þess sem þeir kaupa allskonar þjónustu og versla umtalsvert, m.a. minjagripi, gjafavöru og handverk hér í bænum og í nágrenninu.
Það hefur ekki verið gerð könnun síðan Rögnvaldur Guðmundsson ferðamálafræðingur gerði slíka fyrir Seyðisfjörð árið 2003, þá bara hvað farþegar Norrænu væru að eyða. Við þurfum að halda svona vinnu áfram, fá réttar forsendur og svo hlúa að því sem vel er gert.
Höfundur er markaðsstjóri hafna Múlaþings