1000 íbúum of mikið í sjálfbærnimælingu?
Samkvæmt útreikningum Agl.is er íbúafjölgun á mið-Austurlandi frá upphafi stóriðjuframkvæmda aðeins um þúsund manns. Því er haldið fram í niðurstöðum sjálfbærniverkefnis fyrir Austurland að fjölgunin hafi verið tvö þúsund. Mistök virðast hafa orðið við gagnaútreikning á íbúum í Fjarðabyggð.
Niðurstöður úr sjálfbærniverkefninu, sem er í eigu Alcoa og Landsvirkjunar en er í umsjá Þekkingarseturs Þingeyinga, voru kynntar á fundi í Reykjavík í morgun. Þær eru einnig aðgengilegar á vef verkefnisins. Þá var sagt frá þeim í kvöldfréttum RÚV undir þeirri yfirskrift að íbúum á Austfjörðum/Austurlandi hefði fjölgað um tvö þúsund manns á tæpum tíu árum.
Á sjalfbaerni.is kemur fram að íbúar á Austurlandi hafi árið 2002 verið 7087 talsins en 9080 í fyrra sem myndi þýða viðsnúning upp á 1993 íbúa. Notast er við mannfjöldatölur Hagstofunnar sem miðast við 1. desember hvort ár og miðast svæðið „mið-Austurland“ við sveitarfélögin: Borgarfjarðarhrepp, Seyðisfjarðarkaupstað, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshrepp, Fjarðabyggð og Breiðdalshrepp.
Samkvæmt útreikningi Agl.is, sem byggir á þessum sömu tölum á vef Hagstofunnar voru íbúarnir á svæðinu 8025 og viðsnúningurinn því ekki nema 1055 íbúar.
Mismunurinn virðist liggja í því að útreikningi Agl.is eru íbúar Búðahrepps, Mjóafjarðarhrepps, Fáskrúðsfjarðarhrepps og Stöðvarhrepps taldir með. Séu þeir felldir út fæst talan 7087. Hrepparnir fjórir sameinuðust Fjarðabyggð undir því nafni árið 2006. Útreikningum sjálfbærniverkefnisins um íbúafjölgun skeikar því um 938 íbúa.
Séu þau tvö sveitarfélög sem út af standa á sambandssvæði sveitarfélaga á Austurlandi, Vopnafjörður og Djúpavogshreppur, tekin með í reikninginn nemur íbúafjölgun á Austurlandi frá 2002 til 2011 aðeins 795 íbúum.
Útreikningur Agl.is.
Útreikningur Agl.is.