106 íbúðir á Austurlandi seldar til Heimavalla

Íbúðalánasjóður undirritaði í gær samning við leigufélagið Heimavelli um kaup þess á 139 fasteignum af sjóðnum í einu lagi en 106 íbúðanna eru á Austurlandi. Heimavellir átti hæsta tilboðið í íbúðirnar í opnu söluferli sem hófst í desember síðastliðnum.


Í heild voru 504 fasteignir í fimmtán eignasöfnum auglýstar samtímis og gátu allir boðið í þær sem vildu. Alls bárust kauptilboð frá 43 ólíkum aðilum í eignirnar. Gengið verður frá sölu á fleiri eignum á næstu dögum. Sala íbúðanna 139 til Heimavalla mun hafa jákvæð áhrif á afkomu Íbúðalánasjóðs en söluverðmæti þeirra nemur alls um 1,8 milljörðum.

Jákvæð merki sjást á landsbyggðinni

Eignirnar sem Heimavellir hafa nú keypt af Íbúðalánasjóði eru í fjórum eignasöfnum á Austfjörðum, á Vestfjörðum og á Vesturlandi. Langflestar þeirra eru á Austfjörðum. Tilboðsgjafar í eignirnar hafa talið að jákvæð merki sem nú sjáist á landsbyggðinni, breytingar í atvinnurekstri, fjölgun ferðamanna og meira framboð afþreyingar muni styðja við þessi svæði. Innkoma traustra leigufélaga mæti mikilli eftirspurn sem verið hefur eftir leigueignum á þessum stöðum að undanförnu.

Seldi 18 íbúðir á Fáskrúðsfirði

Með sölunni til Heimavalla lækkar eignastaða Íbúðalánasjóðs á Austurlandi úr 232 eignum í 126 eignir. Þá má sömuleiðis nefna að sjóðurinn seldi nýverið 18 eignir á Fáskrúðsfirði til annars leigufélags og hefur mikil eftirspurn verið eftir leigu þeirra íbúða. Samsetning eigna í hverju safni í söluferlinu miðaðist við að hagkvæmt gæti verið að reka um þær leigufélög og eru eignir í hverju þeirra að jafnaði í sama byggðarlagi.

„Þessi samningur er afar jákvæður fyrir nokkur bæjarfélög á landsbyggðinni,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs í tilkynningu.


„Með honum er leyst úr því óvissuástandi sem verið hefur um þessar eignir nú þegar þær komast í hendur framtíðareigenda. Ég fagna því hve mikil þátttaka var af hálfu fjárfesta og okkur virðist Íbúðalánasjóður fá gott verð með því að selja eignirnar í opnu söluferli. Þá er mikilvægt að þessi sala hefur jákvæð áhrif á afkomu sjóðsins.“

Vaxið hratt

Í frétt DV frá í nóvember segir að Heimavellir hafi á skömmum tíma orðið eitt umsvifamesta leigufélag landsins með kaupum á hundruðum íbúða á síðustu árum, mörgum af Íbúðalánasjóði. Blaðið segir Stálskip og Sjóvá stærstu hluthafana en í eigendahóppnum séu einnig  þekktir fjárfestar eins og Þórður Már Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Straums fjárfestingarbanka, og Arnar Gunnlaugsson, fyrrverandi knattspyrnukappi. 


Í stefnu Heimavalla segir að markmið þess sé að bjóða upp á „gott úrval af leiguíbúðum fyrir einstaklinga og fjölskyldur með örugga leigu til langs tíma.“ Þannig svari félagið „eftirspurn á húsnæðismarkaði eftir stöðugleika og öryggi í húsnæðismálum.“ Félagið sé byggt upp að evrópskri fyrirmynd þar sem leigufélög sem bjóði upp á „örugga langtímaleigu séu eðlilegur hluti af þroskuðum og heilbrigðum fasteignamarkaði.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.