120 milljónir í snjómokstur á Fjarðarheiði og Fagradal
Tæpum 120 milljónum var samanlagt varið í snjómokstur og hálkuvarnir á Fjarðarheiði og Fagradal á árinu 2018. Árið var í hópi þeirra snjóþyngstu á undanförnum áratug.Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra, við fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins frá Fáskrúðsfirði.
Árið 2018 var meðal þeirra dýrustu í vetrarþjónustu á þessum vegum síðustu ár. Kostnaður við mokstur, hálkuvarnir og búnað á Fjarðarheiði var metinn rúmar 67,5 milljónir árið 2018. Alls var varið 172 milljónum í vetrarþjónustu áhaldahússins í Fellabæ, þar af 60% til snjómoksturs.
Í svarinu, sem sýnir kostnað við snjómoksturinn eftir árum aftur til 2010, kemur fram að kostnaðurinn við að sinna Fjarðarheiðinni hafi aðeins verið hærri árið 2014, tæpar 71,3 milljónir. Vetrarþjónusta áhaldahússins í Fellabæ kostaði það ár 220 milljónir. Hlutdeild snjómoksturs fyrri helming áratugarins var 75—82% en lækkaði síðan.
Árið 2018 var tæpri 51,5 milljónum varið í snjómokstur, hálkuvarnir og búnað í vetrarþjónustu á Fagradal. Dýrasta árið var 2012, tæpar 56 milljónir og 54,6 milljónir árið 2015. Það flækir aðeins útreikningana að í bókhaldi vegagerðarinnar er vetrarþjónusta á Fagradal og Hólmahálsi, það er leiðin Egilsstaðir-Eskifjörður, á sama verknúmeri og eru kostnaður við Fagradalinn ætlaður 75% af heildarupphæðinni.
Á svæði áhaldahússins á Reyðarfirði var 94,2 milljónum varið í snjómokstur og hálkuvarnir í fyrra og var aðeins árið 2010 ódýrara. Dýrasta árið var 2015 þegar tæpri 141 milljón var varið í vetrarþjónustuna. Hlutdeild snjómoksturs hefur þar sömuleiðis farið lækkandi, úr 81% árin 2010 og 11 í 65% árið 2018.
Í svarinu er einnig sýndur heildarkostnaður við snjómokstur Vegagerðarinnar á landinu öllu. Hann var 3,4 milljarðar árið 2018, sem er með hærra móti undanfarinn áratug. Hæstur varð hann árið 2015, 3,8 milljarðar og 3,5 árið áður.