Austfirðingar ársins: Þegar slökkviliðið kom var hlutverki okkar lokið og við fórum heim

austfirdingar arsins 2013 0002 webRöð tilviljana varð til þess að feðgarnir Friðþór Harðarson og Sigurður Friðþórsson voru réttir menn á réttum stað á réttum tíma og björguðu sjö manna fjölskyldu út úr brennandi hús í byrjun nóvember. Fyrir afrekið voru þeir kjörnir Austfirðingar ársins 2013 af lesendum Austurfréttar. Við settumst niður með þeim og þeir sögðu okkur frá björguninni.

„Við erum að keyra frá Breiðdalsvík til Hornafjarðar einhvers staðar á milli klukkan tólf og eitt að nóttu. Við vorum að koma úr róðri en það var spáð brælu daginn eftir þannig við ákváðum að keyra heim."

Þannig hefst frásögn Friðþórs og Sigurðar af því þegar þeir vöktu heimilisfólkið að Hamraborg í Berufirði aðfaranótt þriðjudagsins 5. nóvember síðastliðins. Eldur logaði í klæðningu hússins og reykur var kominn inn í íbúðina þar sem sjö manna fjölskylda var í fastasvefni.

Friðþór og Sigurður gera út Benna SU65 frá Breiðdalsvík en búa á Hornafirði. Þeir lögðu netin skammt frá landi að kvöldi mánudagsins. „Það var skyndiákvörðun. Við höfum aldrei gert það áður."

Þeir lögðu svo af stað keyrandi heim á sitt hvorum bílnum. Félagi þeirra var nokkrum mínútum á undan en varð ekki var við neitt í Berufirðinum. Þeir urðu heldur ekki við aðra umferð fyrr en slökkviliðsbíllinn kom.

Friðþór, sem var á undan, veitti athygli undarlegu ljósi sem bærðist utan á húsinu. „Það var frekar dimmt yfir en mér fannst þetta ljós eitthvað skrýtið svo að ég stoppaði. Þegar ég er kominn út úr bílnum sé ég að það logar í húsinu.

Við hringdum strax í Neyðarlínuna og á meðan við leituðum við að nafninu á bænum þannig við sátum sagt hvar þetta væri."

Hamraborg er gamalt félagsheimili, byggt árið 1958 og að langmestu úr timbri. „Síðan keyrum við upp að bænum og sjáum að þar er bíll fyrir utan og ljós loga. Útidyrahurðin er ólæst og við förum inn.

Við komum fyrst inn í stóran sal. Inn í hann er kominn reykur, okkur sveið aðeins í augun en hann var ekki það þéttur að við þyrftum að fálma okkur áfram.

Við finnum þar einn sofandi, húsbóndann og vekjum hann. Svo förum við að vekja konuna og börnin fimm.

Þegar búið er að vekja þau fer hún með börnin á næsta bæ en við förum að hjálpa karlinum að slökkva. Það kviknaði í út frá kabyssuröri sem lá út í gegnum vegginn og við náðum að slökkva í að mestu og rífa klæðninguna utan af.

Það logaði samt áfram heldur uppi í sperru og við náðum bara að fíra í það en ekki drepa eldinn. Við kláruðum örugglega ein fimm slökkvitæki. Í þann mund sem við vorum að klára það síðasta fer eldurinn upp í þakið. Slökkviliðið var þá að koma á staðinn og mátti ekki koma mikið síðar. Þegar það var komið var okkar hlutverki lokið og við fórum heim."

Þeir segjast ekkert hafa velt afrekinu sérstaklega eftir á. „Ég er búinn að vera í björgunarsveitinni heima í mörg ár og stundum hittist vel á en síðan upplifir maður hina hliðina líka," segir Friðþór.

Feðgarnir fengu rúm 30% atkvæða í kjöri Austurfréttar um Austfirðing ársins 2013.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar