Norðfjarðargöng: Rigningar tefja fyrir undirbúningi Norðfjarðarmegin

jan21012013 1Svokölluð sáttanefnd, sem ætlað er að leysa úr mögulegum ágreiningi við gerð nýrra Norðfjarðarganga, mætti á svæðið í kynnisferð í síðustu viku. Miklar rigningar hafa tafið fyrir undirbúningi Norðfjarðarmegin.

Í lok síðustu viku höfðu verið grafnir alls 405,7 metrar, eða 5,3% af heildarlengd ganganna. Framvinda vikunnar var 50,7 metrar. Grafið var í víkkuðu sniði, vegna snúningsútskots.

Rauðleitt setlag, sem í upphafi vikunnar var í miðjum stafni, var í vikulokin komið í þak ganganna og farið að hafa áhrif á form þeirra. Það er með þeim hætti að þau verða meira kassalaga, eins og sjá má á mynd 4.

Sáttanefnd kom í vikunni að kynna sér aðstæður. Sáttanefndin er tilnefnd af báðum aðilum verks, verkkaupa og verktaka og er hlutverk hennar að leysa úr ágreiningi er upp kann að koma í tengslum við jarðgangagröftinn. Nefndin kemur að minnsta kosti einu sinni á ári að kynna sér aðstæður.

Einnig hefur verið unnið í undirbúningi fyrir gangagröft í Fannardal en verið er að hreinsa ofan af klöppinni. Væntanlega verður byrjað að sprengja fyrir gangamunnanum þar nú í vikunni, svo eiginlegur gröftur geti þá hafist um miðjan febrúar.

Miklar rigningar undanfarið hafa þó ekki auðveldað jarðvinnuframkvæmdir utan ganga.

Á næstunni má svo búast við að vinna við vegagerð í átt að landfyllingarsvæðum í Eskifirði hefjist. Byrjað verður á svæðinu sunnan við sundlaugina og verður þá einhver umferð vörubíla sunnan byggðarinnar vestan sundlaugarinnar.

Mynd 1: Sáttanefndin kynnti sér aðstæður í jarðgöngunum. Frá vinstri: Alfred Schulter, Eivind Grøv og Björn Stefánsson.

Mynd 2: Sáttanefndin kynnti sér aðstæður í jarðgöngunum. Frá vinstri: Alfred Schulter, Björn Stefánsson og Eivind Grøv. Fjær standa Gísli Eiríksson frá Vegagerðinni og Eysteinn Dofrason hjá Suðurverki.

Mynd 3: Rauðleitt setlag er ofan við miðjan stafn. Neðan við það er kargi og basalt.

Mynd 4: Setlagið er komið í þak ganganna og farið að hafa áhrif á form þeirra.

Ljósmyndir: Ófeigur Örn Ófeigsson/Hnit verkfræðistofa

jan21012013 2jan21012013 3jan21012013 4

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar