Markaðsstofur landshlutanna boða til Mannamóts

dyrfjoll3 webÍ dag er í fyrsta sinn haldinn sameiginlegur kynningarfundur ferðaþjónustuaðila af landinu öllu undir nafninu Mannamót. Verkefnið er unnið í sameiningu af markaðsstofum landshlutanna.

Það er Austurbrú sem heldur utan um verkefnið fyrir hönd fjórðungsins. Að sögn Jóns Pálssonar fulltrúa á markaðssviði Austurbrúar er verkefni eins og þetta mjög mikilvægt fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu.

„Við teljum mjög mikilvægt að vekja athygli ferðaskrifstofanna og þeirra sem eru að leiðsegja og skipuleggja ferðir á þeirri miklu þjónustu og möguleikum sem eru til staðar á landsbyggðinni“.

Á Mannamót koma fulltrúar 160 öflugra ferðaþjónustu fyrirtækja af landsbyggðinni og taka á móti fulltrúum um 100 fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu.

Þar er m.a. um að ræða ferðaskrifstofufólk, starfsfólk upplýsinga- og bókunarmiðstöðva, leiðsögufólk, nemendur og kennara í leiðsögn og ferðamálafræðum, starfsfólk í þjónustuverum og sölu- og kynningardeildum flugfélaga, ferðaskipuleggjendur, starfsfólk í mótttökum hótela og gistihúsa og starfsfólk opinberra aðila eins og  Íslandsstofu, Ferðamálastofu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, innanríkisráðuneytis, Samgöngustofu og Isavia.

Tilgangurinn með verkefninu er að kynna landsbyggðarfyrirtæki fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru í Reykjavík og vinna með því að dreifingu ferðamanna um landið og uppbyggingu heilsársferðaþjónustu. Að þessu sinni er megináhersla lögð á vetrarferðamennsku. Einnig bjóða markaðsstofur landshlutana og þátttökufyrirtæki upp á léttar veitingar og smakk úr heimabyggð.

Jón segir að Austfirðingar hafi tekið vel í verkefnið og að þátttaka héðan af svæðinu verði að teljast góð.

„Héðan að austan fara fulltrúar 11 ferðaþjónustuaðila til að kynna sig og sína þjónustu. Þá verður markaðssvið Austurbrúar með sérstakan kynningarbás þar sem fulltrúar upplýsingamiðstöðvar Austurlands verða auk ferðamálafulltrúa nokkurra sveitarfélaga. Það er gott að sameina kraftana með þessum hætti og vonandi verður framhald á þessu.“



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar