Verkjaskólinn: Hjálpa einstaklingum til að ná betri tökum á lífi sínu

hsa starfa webHeilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) og Starfsendurhæfing Austurlands (StarfA) hafa gert með sér samstarfssamning um starfrækslu á „Verkjaskóla" fyrir skjólstæðinga StarfA. Samstarfið felur í sér kennslu og ráðgjöf um hvernig njóta má lífsins þrátt fyrir verki. Markmið kennslunnar er að rjúfa vítarhring verkja og óæskilegra lifnaðarhátta, en fjöldi einstaklinga býr við skerta færni og lífsgæði vegna þrálátra verkja.

Í tilkynningu frá samningsaðilum segist Linda E. Pehrsson, framkvæmdastjóri StarfA, fagna samstarfinu. Það sé mikilvægt fyrir skjólstæðinga StarfA sem margir þurfi á stuðningi að halda við að breyta lífsháttum, svo sem að auka hreyfingu, bæta mataræði og svefnvenjur og draga svo sem kostur er úr notkun verkjalyfja.

„Vonandi getum við með þessu samstarfi hjálpað einstaklingum til að ná betri tökum á lífi sínu þannig að þeir geti orðið virkari í daglegu lífi og stundað reglulega hreyfingu, sinnt áhugamálum, vinnu, félagsstarfi, fjölskyldu og heimili," segir Linda.

Með samningnum tekur HSA að sér að halda námskeið í samstarfi við StarfA, þar sem starfsfólk HSA miðlar af þekkingu sinni. Á námskeiðinu verður farið yfir lyfjanotkun, aðferðir sem stuðla að bættum svefni, næringarfræði og æskilegt matarræði og venjur, slökun og streitustjórnun, og líkamlegar æfingar sem stuðla að jafnvægi í daglegu lífi og betri líðan.

Myndatexti: Við undirritun samstarfsamnings HSA og StarfA þann 16. janúar sl. F.v. Ragnar Sigurðsson, svæðisstjóri HSA, Sverrir Rafn Reynisson, deildarstjóri endurhæfingar HSA á Egilsstöðum og Linda E. Pehrsson, framkvæmdastjóri StarfA.
Mynd: HSA/Steinunn Ásmundsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar