Stillt upp hjá Sjálfstæðisflokknum í Fjarðabyggð: Þrír af fjórum halda áfram

xd fbyggd jan14 sigadÞrír af fjórum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð gefa kost á sér til vals á listann fyrir sveitastjórnarkosningar í vor en Ásta Kristín Sigurjónsdóttir ætlar að hætta. Hún fer hins vegar fyrir valnefnd sem raðar upp á listann.

Á félagsfundi fyrir jól var ákveðið að stilla upp á listann og kjósa valnefnd en Ásta Kristín er formaður hennar. Þar var einnig ljóst að þeir Jens Garðar Helgason, Valdimar O. Hermanns og Sævar Guðjónsson gefa kost á sér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn en Ásta ætlar að hætta eftir eitt kjörtímabil.

Í samtali við Austurfrétt sagði Ásta að hún kæmi bæjarstjórnarstarfinu ekki fyrir í annasamri dagskrá þar sem hún starfar að fjölbreyttum verkefnum á fjórðungsvísu sem verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Hún segir vinnu við uppstillinguna ganga vel og töluverður áhugi sé á að starfa að bæjarmálum í Fjarðabyggð.

„Við auglýstum eftir áhugasömu fólki í síðustu viku og höfum orðið vör við töluverðan áhuga. Ég á von á fjölbreyttum og flottum lista í vor.

Í sveitarfélaginu eru mörg spennandi og krefjandi verkefni framundan og það eru margir sem vilja leggja sitt af mörkum við þau og hafa áhrif."

Núverandi bæjarfulltrúar að störfum. Frá vinstri: Valdimar O. Hermannsson, Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, Sævar Guðjónsson og Jens Garðar Helgason. Mynd: SigAð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar