Félagsþjónustunni ekki heimilt að krefjast þvagsýnis til að afsanna neyslu
Persónuvernd telur að félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs hafi ekki verið heimilt að krefja einstakling sem óskaði eftir fjárhagsaðstoð um þvagsýni til að afsanna að hann væri í neyslu. Viðkomandi gaf sýni í fyrsta sinn sem farið var fram á það en svo ekki meir og hefur ekki fengið fjárhagsaðstoð síðan.Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar sem birtur var á vef stofnunarinnar í dag. Stofnunin telur vinnslu persónuupplýsinga og öflun þvagsýnisins hafi ekki samræmst lögum um persónuvernd.
Í málsvörn Fljótsdalshéraðs er því meðal annars haldið fram að félagsþjónustan hafi haft „ástæðu til að ætla að viðkomandi væri í neyslu." Í reglum um fjárhagsaðstoð þjónustunnar segir að heimilt sé að synja umsækjendum um fjárhagsaðstoð séu þeir „í neyslu áfengis eða annarra vímuefna." Hins vegar sé í boði aðstoð við að fara í meðferð.
Til að fylgja þeim eftir var farið fram á að umsækjandinn gæfi þvagsýni. Það samþykkti hann í fyrsta skiptið en neitaði svo og þá var fjárhagsaðstoðinni hætt, meðal annars því viðkomandi hefði „ekki verið tilbúinn að afsanna að hann væri í neyslu." Hann fékk hins vegar aðstoð samkvæmt reglum félagsþjónustunnar á meðan hann var í meðferð.
Í úrskurði Persónuverndar segir að ekki sé ljóst á „hvaða lagastoð" greinin í reglum félagsþjónustunnar byggi. Þar er bent á að í lögum um félagsþjónustu séu ákvæði til að óska eftir afriti af skattskýrslu og greiðslum frá atvinnurekenda áður en fjárhagsaðstoð sé veitt.
Hins vegar sé ekki heimild til að afla „viðkvæmra persónuupplýsinga í tengslum við fjárhagsaðstoð." Bent er á að upplýsingar um heilsuhagi teljist viðkvæmar upplýsingar og um þær gildi strangari kröfur.
Einstaklingurinn kvartaði undan vinnubrögðum félagsþjónustunnar síðasta haust. Í úrskurðinum er haft eftir kvartanda að hann hafi orðið fyrir „verulegum fjárhagslegum skaða" vegna málsins og hann sé nú orðinn gjaldþrota.
Undir félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs heyra sveitarfélögin Vopnafjarðarhreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fljótsdalshreppur og Djúpavogshreppur.