Landsnet vill nýja byggðalínu yfir Sprengisand: Núverandi lína hamlar atvinnuþróun á landsbyggðinni
Landsnet telur að byrja eigi að reisa háspennulínu þvert yfir Sprengisand til að efla dreifikerfi raforku á Austurlandi. Byggðalínan er sprungin og það hamlar atvinnuuppbyggingu á svæðinu segir aðstoðarforstjóri fyrirtækisins.Þetta kom fram í kynningu Guðmundar Inga Ásmundssonar, aðstoðarforstjóra Landsnets, á Reyðarfirði í síðustu viku. Byggðalínan er fulllestuð og kemur að hans mati í veg fyrir að hægt sé að staðsetja meðalstór fyrirtæki á stærstum hluta landsbyggðarinnar.
„Öflugasta flutningskerfið er á suðvesturhorninu og þar getum við aukið framboðið," sagði Guðmundur.
Byggðalínan var kláruð fyrir um þrjátíu árum og síðan hefur ekki verið bætt við hana. Nú er svo komið að „miklir flöskuhálsar" eru í dreifikerfi raforku á Íslandi. Forsvarsmenn Landsnets segjast ekki geta uppfyllt lagaleg skilyrði sem fyrirtækinu séu sett um sambærilega þjónustu um allt land.
„Mesta óvissan á næstunni er hvar notkunin verður, ekki hvar virkjanirnar verða," sagði hann og vísaði til nýtingarflokks rammaáætlunar. „Hér á Austfjörðum mun orkunotkunin aukast og við þurfum að bæta úr flutningskerfinu."
Kostirnir virðast snúast um að byggja nýja línu samhliða núverandi frá Blöndu yfir í Fljótsdalsstöð sem myndi létta undir með norðausturlandi, einkum samhliða aukinni orkuvinnslu á svæðinu.
Á teikniborði Landsnets er einnig lína frá Suðurlandi norður yfir Sprengisand sem auka myndi orkuna á norð- og suðausturlandi. Í kjölfarið yrði sú lína tengd við Blöndu.
Hugmyndirnar eru þó langt í frá óumdeildar enda mikil sjónræn áhrif af loftlínu. Guðmundur segir framkvæmdir við nýja byggðalínu hafa stoppað á umræðu um jarðstrengi og skipulagsvaldi sveitarfélaga því sveitarfélaga sem eigi litla hagsmuni undir nýrri línu séu treg til að láta hana rjúfa landssvæði sitt.
Þá hefur verið mikil umræða um hagkvæmni jarðstrengja undanfarna mánuði, einkum eftir að unnin var úttekt fyrir Landvernd af kanadískri verkfræðistofu sem sýndi að jarðstrengir væru fyllilega samanburðarhæfir við loftlínurnar.
Guðmundur Ingi segir Landsnet hafa fengið íslenskar verkfræðistofur til að endurmeta kostnað við jarðstrengi. Samkvæmt þeim útreikningum sé loftlínan helmingi ódýrari miðað við þá 600 MVA línu sem þurfi í nýja byggðalínu. Munurinn minnki þó með línu með minni spennu og þegar líftími sé tekinn með í dæmið
Þarna þurfi að velja á milli tveggja kostnað. Ljóst sé þó að auknum kostnaði verði velt út í raforkuverðið.