Áhrif gruggs í Lagarfljóti ekki að fullu komin fram: Sérfræðingar ekki bjartsýnir á mótvægisaðgerðir

sveinn kari valdimarsson lvÁhrif flutnings Jökulsár á Brú austur í Lagarfljót á lífríki fljótsins eru að líkindum ekki komin að fullu fram. Fylgst verður áfram með þeim á næstu árum. Verið er að skoða mótvægisaðgerðir gegn minnkandi fiskgegnd.

Þetta kom fram í máli Sveins Kára Valdimarssonar, líffræðings hjá Landsvirkjun, á opnum fundi um áhrif Fljótsdalsstöðvar á opnum fundi á Egilsstöðum í vikunni.

Áhrif vatnaflutninganna eru í grófum dráttum þau að Jökuls á Dal tapar einkennum jökulár en grugg eykst í Lagarfljóti á móti. Það verður til þess að gagnsæi vatnsins þar minnkar sem kemur niður á ýmsum lífverum sem þar búa.

„Lífríkið hefur dregist saman eftir því sem nemur rýni fljótsins," sagði Sveinn Kári. Samdráttur í lífríkinu sést ekki í hliðarám sem bendir til þess að virkjunin sé aðalorsök hans.

Í skýrslum hefur komið fram að bleikju hefur fækkað verulega í fljótinu og hún rýrnað. Slíkt hefur gerst víðar um landið og því ekki víst að virkjunin skýri þá fækkun. Sveinn Kári sagði hins vegar að þá ættu aðrar tegundir að koma í staðinn, svo sem urriði, en honum hefði heldur fækkað, þó ekki jafn hratt og bleikjunni.

Fæða fisksins hefur einnig breyst. Meira er um skordýr af landi sem detta ofan í vatnið heldur en dýr sem venjulega lifa í vatninu.

„Áhrifin í Lagarfljóti eru að mestu komin fram en þó ekki að fullu. Uppistaðan í veiðinni í dag er fiskur sem fæddist áður en vatnaflutningar hófust. Við eigum eftir að sjá hvað gerist þegar uppistaðan verður fiskur sem klaktist eftir flutninga og hvort hann lagi sig að aðstæðum og þá á hve löngum tíma," sagði Sveinn Kári.

Verið er að skoða mögulegar mótvægisaðgerðir, svo sem sleppingu annarra tegunda fiska í fljótið, svo sem laxfiska, og eiga slíkar tillögur að liggja fyrir í ár. Sveinn sagði að „sérfræðingar væru ekki bjartsýnir á mótvægisaðgerðir í fljótinu."

Á meðan er unnið að því að festa hina tæru Jökulsá á Dal í festi sem veiðiá. Bændur af Jökuldal, sem til máls tóku á fundinum, spurðu út í hvort hægt væri að halda aftur af yfirfalli Hálslóns þegar það fylltist í ágúst til að hægt væri að lengja veiðitímann.

Þá gæfu rannsóknir á sleppingu seiða í ána jákvæðar vísbendingar um að ný kynslóð væri þar farin að klekjast út.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar