Stöðva verður launasig í framhaldsskólum: Skólarnir í spennitreyju fjárskorts

frambodsfundur va 0010 webKennarar við Menntaskólann á Egilsstöðum og Verkmenntaskóla Austurlands hafa áhyggjur af stöðu samningaviðræðna Kennarasambands Íslands og samninganefndar ríkisins. Þeir vilja að laun þeirra verði sambærileg við aðra háskólamenntaða ríkisstarfsmenn.

Þetta kemur fram í ályktun frá kennarafélögum skólanna. Framhaldsskólakennarar víða um land, þar á meðal í ME og VA, lögðu niður vinnu klukkan ellefu í morgun og héldu klukkustundar langan samstöðu fund þar sem staðan í kjarasamningunum var rædd.

Í ályktun kennarafélags VA er lýst yfir „þungum áhyggjum" af þeirri stöðu sem samningaviðræðurnar eru komnar í. Farið er fram á að „launasig" í framhaldsskólum verði stöðvað og tryggt að kaupþáttur launa framhaldsskólakennara verði til jafns við aðra háskólamenntaða starfsmenn ríkisins.

Í ályktun kennarafélags ME segir að „slök starfskjör" ógni nýliðun og grafi undan gæðum skólastarfs. Ólíðandi sé fyrir framhaldsskólakennara að þurfa „enn einu sinni að fara í harða kjarabaráttu til þess að tryggja samkeppnishæft skólastarf og menntun sem stenst samanburð við önnur lönd og er íslensku þjóðinni til sóma."

Kennararnir benda á að kaupmáttur launa framhaldsskólakennara hafi rýrnað um 4% frá árinu 2001 á sama tíma og kaupmáttur í landinu hafi aukist um 9,7%.Við bætist að framlög til framhaldsskóla séu langt undir meðaltali OECD landa og stjórnvöld haldi skólunum „í spennitreyju fjárskorts."

„Launastika reiknilíkansins sem skammtar skólunum fjármagn hefur verið fölsuð þannig að skólarnir hafa ekki fengið það fjármagn sem þeim ber til þess að greiða kennurum laun," segir í ályktun kennarafélags VA þar sem þess er krafist að laun þeirra verði „leiðrétt hið fyrsta."

Kjaradeila kennara og ríkisins er komin til ríkissáttasemjara. Töluvert virðist bera á milli. Komi til verkfalls eru líkur á að það hefjist um mánaðarmótin febrúar/mars. Það gæti tafið fyrir útskrift nemenda sem ljúka eiga námi í byrjun maí.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar