Hjálpuðu sjúkrabíl yfir Oddsskarð í kolvitlausu veðri
Björgunarsveitin Brimrún frá Eskifirði var kölluð út skömmu fyrir kvöldmat til aðstoðar ferðalöngum á leið yfir Oddsskarð í kolvitlausu veðri.Frá þessu er greint á vef Landsbjargar. Sveitin losaði um rútu og um tvo bíla sem sátu þar fastir til að hægt væri að ryðja en koma þurfti sjúkrabíl frá Eskifirði til Norðfjarðar yfir skarðið.
Nokkuð hvasst hefur verið á Oddsskarði síðan um hádegi í dag en verst var veðrið þó um kvöldmatarleytið. Vind hefur heldur lægt nú undir kvöld.