Hanna Birna: Staða kvenna innan Sjálfstæðisflokksins er ekki í lagi

hanna birna kristjansdottir nov13Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var afar gagnrýnin á stöðu kvenna innan flokksins á opnum fundi á Egilsstöðum fyrir helgi. Hún hvatti karlmenn í flokknum til að sýna meira umburðarlyndi gagnvart fjölbreytileika kvenna í stjórnmálum.

„Þetta er ekki í lagi. Þið eruð allir frábærir en þetta er ekki í lagi," sagði Hanna Birna á fundinum en fundargestir voru flestir karlmenn á miðjum aldri.

Hún rakti hvernig talað sé til kvenna innan flokksins. „Þeir sitja saman og segja „komdu nú og vertu nú með Hanna". Mér líður eins og þetta sé karlaklúbbur og þið séuð að hleypa okkur inn í hann. Á ég ekki þennan flokk eins og þið? Þetta virkar illa á mig og konur af minni kynslóð."

Hanna Birna sagði að það hefði komið í hennar hlutverk að „sjá um" að fá fleiri konur til starfa innan flokksins. „Ég átti að græja það og gerði." Þær virtist ekki jafn velkomnar þegar þær fóru að gagnrýna störf flokksins.

Varaformaðurinn hvatti til þess að sjálfstæðismenn sýndu umburðarlyndi gagnvart „mismunandi konum."

„Menn vilja töffara, harðgerðar gribbur sem láta í sér heyra og eru eins og karlarnir. Ég heyri þetta og þess vegna fíli sjálfstæðismenn mig.

Ekki setja okkur í sama mót. Leyfum konum að koma inn í Sjálfstæðisflokkinn. Hann virðist hafa minna umburðarlyndi fyrir ólíkum konum sem taka þátt í stjórnmálum."

Hanna Birna lýsti einnig yfir áhyggjum sínum af litlum stuðningi meðal ungs fólks við flokkinn. Hún sagðist hafa setið á fundi þar sem rætt hefði verið um skilgreiningu á „alvöru sjálfstæðismönnum" sem hjóluðu ekki og vildu ekki þéttingu byggðar í Reykjavík.

„Við erum að taka dægurflugurnar og móta okkur út frá þeim. Við höfum ýtt unga fólkinu frá okkur."

Hanna Birna sat fyrir svörum á fundinum ásamt formanninum, Bjarna Benediktssyni en hún bauð sig fram gegn honum á landsfundi flokksins 2011. Hún fór ekki fram gegn honum aftur í fyrra en háværar raddir kölluðu eftir forustu hennar í kringum þingkosningar síðasta vor.

Hún sagði að samstarf þeirra í dag væri „algjörlega vandræðalaust" og „engin átök í forustu Sjálfstæðisflokksins." Hún sagðist hafa þekkt Bjarna áður en þeim „var stillt upp. Samstarfið er frábært eins og er og ég vona að hann verði formaður til eilífðarnóns."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar