Afar blautur og hlýr janúarmánuður á Austurlandi
Úrkomumet fyrir janúar voru slegin á tveimur austfirskum veðurstöðvum í nýliðnum mánuði. Hann er jafnframt með þeim hlýjustu sem mælst hefur í fjórðungnum.Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar yfir tíðarfar í janúar 2014. Yfir 600 milli metra úrkoma mældist Hánefsstöðum í Seyðisfirði og 573,9 mm úrkoma á Gilsá í Breiðdal. Til samanburðar má nefna að úrkoman allt síðasta ár á þeirri stöð voru 1424,2 mm.
En þótt úrkoman væri næg var sérlega snjólétt á svæðinu. Enginn dagur var alhvítur á Dalatanga sem mun vera einstakt í janúar.
Alauðir dagar voru þar 28 og hafa aldrei verið jafnmargir í janúar og sjóhulan 5% sem er sú minnsta sem vitað er um síðan slíkar mælingar hófst þar árið 1939.
Mánuðurinn var sá næst hlýjasti í sinni röð sem mælst hefur á Teigarhorni í Berufirði þar sem veðurmælingar hafa verið í 142 ár en meðalhitinn var 3,7°C. Janúar var þar aðeins hlýrri árið 1947.
Mánuðurinn var einnig sá næst hlýjasti á Egilsstöðum, 2,1°C, en þar hefur verið fylgst með veðrinu í sextíu ár. Á Dalatanga var hann sá sjötti í röðinni af 75 með meðalhita upp á 3,4 gráður.
Einstakt þykir að frostlaust var allan mánuðinn á Vattarnesi sem hefur aldrei áður gerst í janúar, svo vitað sé til. Lægsti hiti þar var 0,4 stig. Í Seley fór hitinn aldrei undir frostmark.
Læsti hiti á landinu mældist hins vegar -19 stig á Brúarjökli þann 12. janúar.
Hátt í 600 mm úrkoma mældist á Gilsá í Breiðdal í janúar. Mynd: Lárus Sigurðsson