Bjarni og Hanna Birna: Léttir í samfélaginu þegar tókst að skila hallalausum fjárlögum
Forustumenn Sjálfstæðisflokksins segja samstöðu hafa ríkt á Alþingi fyrir jól um að skila hallalausu fjárlagafrumvarpi þótt menn væru ekki sammála um útfærslur. Mörg stefnumál ríkisstjórnarinnar hafi þegar gengið hraðar í gegn en þau reiknuðu með. Næsta verkefni er að minnka skuldir ríkissjóðs sem meðal annars náist fram með sölu á meirihluta í Landsbankanum.„Ég held að menn átti sig ekki á afrekinu sem unnið var með þessum fjárlögum. Við tókum við vanda upp á 30 milljarða. Ég átti ekki von á að hann tækist að leysa í fyrstu atrennu. Ég hélt það yrði verkefni alls kjörtímabilsins," sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins á opnum fundi á Egilsstöðum á föstudag.
„Við teljum að það sem ríkisstjórn sé að gera sé jákvætt og hún hafi þegar náð meiri árangri en reiknað var með. Við fundum fyrir léttisbylgju sem fór í gegnum samfélagið þegar ljóst varð um hallalaus fjárlög og skuldaleiðréttingar."
Hún og formaðurinn Bjarni Benediktsson en þau voru að ferðast um landið í aðdraganda sveitarstjórnakosninga. Bjarni sagði að „algjör samstaða hefði tekist í þinginu um að klára fjárlagafrumvarpið réttu megin við núllið. Það kom enginn flokkur fram með útgjaldahugmyndir án þess að vera með tekjur á móti."
Nauðsynlegt að taka á skuldastöðu heimilanna
Hanna Birna viðurkenndi að hafa verið „með í maganum" um skuldaleiðréttingar. Sú leið sem valin var hefði verið betri en „hin hreina framsóknarleið" sem hefði þýtt fall í lánshæfi hjá matsfyrirtækjum.
Bjarni sagði að taka hefði þurft á skuldastöðu heimilanna sem hefði verið orðin „gríðarlega há" bæði í alþjóðlegu og sögulegu samhengi. Hann kvaðst ekki gera mun á lækkun lána í gegnum tekjuskatt eða með að lækka það í gegnum ríkissjóð. Fjárstreymið færi í gegn á sama stað.
„Það sem skiptir máli er að fólk getur almennt lækkað húsnæðisskuldir sínar um 20% á næstu fjórum árum. Við náum þó aldrei fullkomnu réttlæti og verðum endalaust með jaðartilvik."
Bjarni lagði sérstaka áherslu á skattalækkanir ríkisstjórnarinnar. „Það skiptir að geta teflt fram frumvarpi strax á fyrsta þingvetri þar sem við lækkum skatta. Munurinn eru 20-30 milljarðar á ári í skatta á heimili og atvinnulíf miðað við fyrri ríkisstjórn. Það eru lægri skattar á öll fyrirtæki nema stóru bankana." Þá bætti hann við að næsta verkefni á þessu sviði væri endurskoðun virðisaukaskattkerfinu.
Kallaði eftir stuðningi við Illuga
Hanna Birna sagði að vel hefði tekist „af hálfu ríkisstjórnarinnar að færa skynsemi inn í stjórnmálin. Við tölum um mál sem almenningur skilur að skipta máli."
Hún gaf til kynna að framundan væri hörð umræða um breytingar á skólakerfinu með styttingu náms í framhaldsskólum um eitt ár og sömuleiðis í grunnskóla. Með þeim væri hægt að „laga til í efnahagsreikningi ríkisins."
Hún sagði að Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, myndi þar standa í ströngu og hvatti flokksmenn til að styðja hann. „Við verðum að bakka hann upp."
Þá taldi hún vel hafa tekist til í forgangsröðum heilbrigðismála í fjárlagagerðinni. „Við heyrum ekki lengur umræðu um neyðarástand í heilbrigðismálum," sagði hún og bætti við að þar væru líka framundan breytingar með að „hleypa einkaaðilum í ríkara mæli að heilbrigðiskerfinu."
Bjarni benti á að næsta stóra verkefni í ríkisfjármálunum væri hins vegar niðurgreiðsla skulda. „Ef ekki væri fyrir vaxtabyrðina værum við með mjög flottan ríkisreikning." Hann sagði fyrri ríkisstjórn hafa fjármagnað hallarekstur með útgáfu ríkisskuldabréf sem ekki væru til eignir á móti.
Leiðin til þess er að selja eignahluti í stóru bönkunum þremur og borga lán tekin voru til að rétta þá við eftir hrunið. Bjarni sagði Landsbankann yfir 200 milljarða virði í dag. Hann kvaðst sjá fyrir sér ríkið myndi eftir söluna halda eftir þriðjungshlut í bankanum og vera stærsti eigandinn. Mikilvægt væri að „tryggja dreifða eignaraðild" að hinum hlutanum.