Alþingi: Af hverju er svona mikill léttir innan Sjálfstæðisflokksins?

althingi roskvaÞingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs spurði á þingi í gær hvort sjálfstæðismenn álíti sig réttborna til valda. Spurningin kom í kjölfar orða Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins á opnum fundi á Egilsstöðum í síðustu viku.

„Maður spyr sig varðandi það að það sé svo mikill léttir innan flokksins: Er það út af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið hlífiskildi yfir valdastéttinni í landinu, auðvaldinu í landinu, og því sé mikill léttir á þeim bænum að þessi flokkur sé nú kominn aftur til valda og geti stjórnað ferðinni hér í landinu? Ég spyr mig að því."

Þessum spurningum varpaði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG úr Norðvesturkjördæmi fram í umræðum á Alþingi í gær.

Tilefni orða hennar eru ummæli Bjarna á fundinum, sem Austurfrétt greindi frá, um að það almennir fylgismenn Sjálfstæðismenn hefðu unnað því illa að flokkurinn væri í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili. Hann kvaðst skynja létti meðal þeirra eftir að flokkurinn varð aftur stærsti flokkurinn á Alþingi og léttara væri yfir flokksmönnum.

Lilja Rafney spurði hvort menn teldu sig „þess máttuga að vera réttbornir til valda." Hún sagði ummæli Bjarna lýsa „alveg ótrúlegu hugarfari og líta niður á lýðræðishugsjónina."

Hún spurði hvort ekki væri eðlilegt að fólkið í landinu réði því hverjir væru við stjórn. Ekki væri sjálfsagt að Sjálfstæðisflokkurinn væri við stjórn árum saman „eins og það séu bara einhver hjú sem koma á einhverra áratuga fresti og taki til eftir óstjórn flokksins og síðan komist hinir réttbornu aftur til valda?"

Enginn þingmaður brást við andsvars eða stuðnings við ummælum Lilju Rafneyjar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar