Stofna félag um verslun- og þjónustu á Héraði: Ekki bara fyrir fyrirtækin heldur samfélagið í heild

thjonustusamfelagid fljotsdalsherad 0050 stjornFormaður nýstofnaðs félags um þjónustusamfélag á Fljótsdalshéraði segir samstarfsvettvanginn efla samfélagið á Héraði í heild en ekki vera eingöngu fyrir fyrirtækin sem verði aðilar að félaginu. Til þessa hafi vantað eftirfylgni við þær hugmyndir sem settar hafi verið fram.

„Með stofnun félagsins sjáum við hag okkar í að bæta ferðaþjónustuna á Héraði. Með þessu vettvangi fæst meiri ávinningur og við sjáum árangur fyrr," segir Sigrún Hólm Þorleifsdóttir, formaður félagsins sem stofnað var í morgun.

Á fundinn mættu fulltrúar um níutíu fyrirtækja og stofnana á Héraði en tæplega 200 fyrirtækjum var boðið til fundarins.

„Við teljum öll fyrirtæki á Héraði eiga tækifæri með svona félagi. Verkstæði, iðnaðarmenn hárgreiðslustofur og gistihús eiga að hafa jafnan aðgang að því. Fólkið sem starfar hjá þessum aðilum býr á svæðinu og vill að sjá að það byggist fallega upp.

Það styrkir líka félagið að hafa fleiri með. Það er ekki gott að taka eina atvinnugrein því ein grein ber ekki upp heilt samfélag."

Á fundinum kom fram að búið væri að safna miklu af upplýsingum og leggja í mikla greiningarvinnu á Egilsstöðum sem ferðamannastað. Ýmis tækifæri séu til staðar, staðurinn standi á krossgötum og sé í nágrenni við ferjuna. „Langflestir sem heimsækja Austurland keyra hér í gegn."

Eftirfylgni hefur hins vegar skort við hugmyndirnar. Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hyggst því leggja félaginu til fjármuni sem nýtast eiga í starfsmann sem sinni markaðsátaki, viðburðastjórnun, útgáfu, sameiginlegum auglýsingum og kynningarmálum fyrir utan að vera talsmaður félagsins.+

Í morgun var skipuð starfsstjórn fram að aðalfundi en hana skipa auk Sigrúnar þau Ívar Ingimarsson, Þráinn Lárusson, Heiðar Róbert Birnuson og Alda Harðardóttir en varamenn eru Markús Eyþórsson, Guðbjörg Björnsdóttir og Guðmundur Ólafsson.

Fyrsta verk stjórnarinnar verður að ganga frá samningi við sveitarfélagið og gera verkefnalista og finna starfsmann til að fylgja honum eftir.

„Það er von á starfsmanninum fljótlega. Stjórnin hefur umboð til að fara í viðræður við einstakling eða fyrirtæki um að taka að sér verkefni fyrir félagið."

Þá þarf að ganga frá aðild fyrirtækja að félaginu. „Við vonumst til að sem flestir taki þátt því við viljum að þetta verði öflugur samstarfs- og samræðuvettvangur."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar