Samfylkingin á Seyðisfirði tekur undir óskir um persónukjör og býður ekki fram lista

gudrun katrin arnadottir sfkSamfylkingin hyggst ekki bjóða fram lista á Seyðisfirði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor líkt og gert var árið 2010. Með því sé verið að styðja við háværari raddir um persónukjör.

Ákvörðunin var tekin á félagsfundi í haust og tilkynnt til bæjarbúa með dreifibréfi. „Við upplifðum síðustu kosningar þannig að krafan um persónukjör væri háværari en oft áður, sérstaklega þar sem við búum í svona litlu bæjarfélagi," segir Guðrún Katrín Árnadóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Í bréfinu er lögð áhersla á að til að persónukjörið geti orðið að veruleika verði flokkarnir fyrst að stíga fram og hætta að bjóða fram.

Jón Halldór Guðmundsson, formaður Samfylkingarinnar á Seyðisfirði, segir að viðbrögðin við bréfinu sem slíku hafi ekki verið mikil.

„Í umræðum milli fólks þá er og hefur verið töluvert útbreidd skoðun hér í bæ að flokkapólitík eigi ekki heima í bæjarstjórnarkosningum í minni sveitarfélögum."

Eins og Austurfrétt hefur greint frá er unnið að því að stilla upp á lista hjá flokkunum sem mynda meirihlutann í bæjarstjórn, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Jón Halldór efast um að það breyti afstöðu Samfylkingarmanna.

„Sú ákvörðun sem kynnt var í umræddu dreifibréfi var tekin á félagsfundi eftir umræður á nokkrum fundum. Ég sé ekki að forsendur hafi breyst, enda verður ákvörðun félagsfundar ekki breytt nema á öðrum félagsfundi."

Aðspurð sagðist Guðrún ætla að hætta í bæjarstjórninni að loknu þessu kjörtímabili. „Ég persónulega ætla ekki að gefa kost á mér áfram."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar