Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi flugi á milli Akureyrar og Vopnafjarðar?

vopnafjordur 2008 sumarEkki eru lengur forsendur til þess að halda áfram áætlunarflugi á milli Akureyrar og Vopnafjarðar/Þórshafnar eins og verið hefur. Skoða mætti málin ef flogið væri beint á milli Vopnafjarðar og Reykjavíkur. Sú flugleið skiptir íbúa á Norðausturlandi máli.

„Ekki er grundvöllur fyrir áframhaldandi flugi milli Vopnafjarðar/Þórshafnar og Akureyrar," segir í skýrslu innanríkisráðuneytisins um þjóðfélagslegan ábata um áætlunarflugi á Íslandi. Tap íslensks samfélags af fluginu er áætlaðir tveir milljarðar króna næstu fjörutíu árin.

Í skýrslunni er skoðuð hagkvæmni flugleiða innanlands, meðal annars milli Vopnafjarðar/Þórshafnar og Akureyrar. Norlandair flýgur leiðina alla virka daga í samstarfi við Flugfélag Íslands sem flytur farþega á milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Í skýrslunni segir að í öllum tilfellum sé hagstæðara, með tilliti til tíma og beinna útgjalda, að keyra á milli staðanna á Norðausturlandi og Akureyrar frekar en fljúga. Þá séu flugfargjöld til Reykjavíkur oft ódýrari þegar aðeins er flogið til Akureyrar.

Tekið er fram að það gæti skapað ábata fyrir notendur að breyta fluginu þannig að flogið verði beint milli Reykjavíkur og Vopnafjarðar/Þórshafnar. Vitað er að 83% þeirra farþega sem fara frá Norðausturhorninu ætla suður en aðeins 17% til Akureyrar.

Velt er upp lausnum eins og að bjóða út beint flug milli Reykjavíkur og Vopnafjarðar, fækka flugdögum en bjóða frekar upp á dagsferðir. Þá sé hægt að skera niður í rekstri flugvalla eða „leita leiða til aukinnar hagkvæmni."

Ríkið styrkir flugið um tæpar 57 milljónir króna á ári. Flogið er frá Akureyri til Vopnafjarðar og þaðan til Þórshafnar. Þar sem flugið er samnýtt myndi ekki fást sparnaður með að fella annan áfangastaðinn út.

Rekstur flugvallarins á Vopnafirði hefur að meðaltali kostað 35,7 milljónir á ári en gert er ráð fyrir að hann hækki í 50 milljónir á ári á næstu árum og áratugum.

Í skýrslunni kemur þó fram að flugið skipti íbúa norðausturhornsins miklu máli en notkun íbúa á áhrifasvæði flugvallanna var könnuð í tengslum við úttektina.

Tæpur helmingur Vopnfirðinga hafði nýtt sér flugið á árs tímabili sem skoðað var og hærra hlutfall kvenna hafði flogið heldur en karla. Samanborið við aðra staði nota Vopnfirðingar flugið frekar til að sækja sér heilbrigðisþjónustu heldur en aðrir.

Forsvarsmenn um helmings fyrirtækja á Vopnafirði telja að það hefði mjög mikil eða mikil áhrif á reksturinn ef flugið legðist af. Sé litið til þeirra ferða sem atvinnurekendur greiða til og frá Vopnafirði er flugið valið í 70% tilfella.

Í greiningunni var fjallað um áhrif flugs um flugvellina á Akureyri, Ísafirði, Húsavík, Bíldudal, Grímsey, Gjögri, Þórshöfn, Höfn, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar