Einn mesti snjór sem við höfum fengið: Fjögurra metra hár snjóskafl í munna Oddsskarðsganga
Snjómokstursmenn hafa verið á ferðinni í rúma níu tíma við að ryðja leiðina á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar. Vegfarendur segja ótrúlegt um að lítast í vetrarríkinu þar sem allt sé á kafi í snjó.„Þessi snjór er með því mesta sem við höfum fengið. Við erum búnir að fara í gegnum þriggja metra háa skafla," segir Einar Sveinn Sveinsson, snjómokstursmaður.
Byrjað var að moka klukkan fimm í morgun. Þegar Austurfrétt ræddi við Einar Svein á þriðja tímanum í dag var mokstursflokkurinn staddur við skíðaskálann Eskifjarðarmegin. „Þetta hefur gengið mjög rólega."
Flokkurinn mokar sig áfram niður þeim megin en ekki er ljóst enn hversu mikill snjór er á leiðinni. Hann virðist þó nokkur en skyggnið er lítið.
Stærsti skaflinn sem á vegi hópsins hefur orðið var í munna Oddsskarðsganganna. Skafið hafði inn í og meðfram munnanum og þar var kominn um fjögurra metra hár skafl. „Hann er sá langhæsti."
Einar Sveinn segir þungan snjó neðar í fjallinu sem erfitt sé að blása. Léttari snjór sé ofar sem fokið geti til og fyllt í aftur.
Austurfrétt ræddi við Aldísi Stefánsdóttur sem var á eftir snjómokstursflokknum en hún var á leiðinni í Egilsstaði að sækja dóttur sína í flug. Hún segir aðstæður ótrúlegar.
„Það var ótrúlegt að sjá þetta," segir hún um aðstæðurnar við gangnamunnann. „Það er allt á kafi."
Myndir: Aldís Stefánsdóttir