Snjómokstursmenn á Fjarðarheiði búnir að vera að í fimmtán tíma: Mokstri hætt á Oddsskarði
Vonir standa til að hægt verði að opna Fjarðarheiði í kvöld en snjómokstursmenn hafa verið þar að störfum í fimmtán klukkustundir. Snjóruðningstæki komust yfir Oddsskarð á sjöunda tímanum en vegurinn lokaðist strax aftur. Þar hefur mokstri verið hætt.„Við náðum gati í gegn og tókst að ná þeim óþolinmóðustu," segir Einar Sveinn Sveinsson, snjómokstursmaður úr Neskaupstað.
Byrjað var að moka frá Norðfirði klukkan fimm í morgun en tækin komu til Eskifjarðar um klukkan hálf sjö í kvöld. Einar Sveinn segir að erfitt hafi verið að moka Eskifjarðarmegin og mikill skrafrenningur. „Það lokaðist strax á eftir blásaranum og þá hættum við."
Snjómokstursmenn hófu einnig að moka veginn yfir Fjarðarheiði frá Egilsstöðum klukkan fimm í morgun. Um klukkan átta voru þeir komnir niður í Neðri-Staf og plógurinn kominn fram úr blásaranum. „Þetta eafdalr alveg að hafast," sagði Einar Bjarnason hjá Vegagerðinni.
Vonast er til að ruðningstækin komist í gegn í kvöld og fari aftur yfir heiðina yfir í Egilsstaði. Skafrenningurinn er ekki jafn mikill á Fjarðarheiðinni og á Oddsskarði og því vonast Vegagerðin til þess að það takist að opna heiðina.
Samband við snjóruðningstækin og aðra ferðalanga á heiðinni er þó stopult þar sem símamastur í Bjólfi gaf sig undan snjóþunganum.
Ófært hefur verið yfir Fjarðarheiðina síðan síðdegis á miðvikudag. „Þetta er með því versta sem maður hefur lent í lengi í þetta langan tíma," segir Þorvaldur Jóhannsson, íbúi á Seyðisfirði.
Hann var meðal farþega sem ætluðu í flug á Egilsstöðum seinni partinn í dag en ekkert varð úr því. „Þeir voru tilbúnir að bíða með vélina til hálf sjö en svo sáu þeir að þetta gengi ekkert."
Þorvaldur átti að vera ræðumaður á sólarkaffi Seyðfirðingafélagsins í Reykjavík á morgun en af því verður ekki þar sem allar vélar frá Egilsstöðum á morgun eru fullbókaðar.
„Það er svakalegur snjór uppi," segir Þorvaldur um aðstæður. Hann fór af stað með rútu sem bíður enn enda þurfa nokkrir farþegar úr henni að komast yfir. „Þegar ég fór niður úr fjallinu voru menn ekki enn farnir að sjá tækin."
Mynd 1: Við Oddsskarðsgöng Norðfjarðarmegin í dag. Kristín Hávarðsdóttir
Mynd 2: Frá skíðasvæðinu í Stafdal nú í kvöld. Helgi Haraldsson
Mynd 2: Frá skíðasvæðinu í Stafdal nú í kvöld. Helgi Haraldsson