Gekk ljómandi vel að opna Oddsskarðið í morgun
Vegurinn yfir Oddsskarð var opnaður fyrir almennri umferð um klukkan níu í morgun. Fært er fyrir fjórhjóladrifna bíla yfir Fjarðarheiði. Á báðum stöðum er unnið í að opna enn betur.„Þetta gekk ljómandi vel í morgun," segir Svavar Valtýsson hjá Vegagerðinni. Samkvæmt kortum Vegagerðarinnar er hált um Oddsskarð en fært fyrir alla bíla.
Snjóblásarar eru að störfum og unnið í að breikka snjógöngin þannig að umferð gangi sem best.
Fært er yfir Fjarðarheiði á fjórhjóladrifnum bílum. Þar er sömuleiðis verið að hreinsa snjó af og breikka. Vonast er til að opið verði fyrir alla umferð síðar í dag.
Í morgun var einnig rutt til Vopnafjarðar, Borgarfjarðar og Háreksstaðaleið. Snjóþekja er á flestum vegum á Austurlandi en mokstur víða í gangi.