Baktal réttlætir ekki ofbeldi: Kýldi stúlku krepptum hnefa í andlitið
Héraðsdómur Austurlands dæmdi nýverið ríflega tvítugan karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að kýla konu með krepptum hnefa í andlitið. Þeim hafði áður sinnast þar sem stúlkan hafði baktalað hann.Árásin átti sér stað á Seyðisfirði í júlímánuði árið 2012 fyrir utan félagsheimilið Herðubreið. Árásarmaðurinn kvaðst ekki muna eftir árásinni og neitaði að hafa átt samskipti við stúlkuna umrætt kvöld.
Fyrir dómi bar hann að lögreglan hefði verið búin að fjarlæga hann af svæðinu þegar hún átti sér stað. Annmarkar voru á tímaskráningu lögreglunnar þessa nótt en dómurinn taldi það ekki annmarka á rannsókn málsins. Þvert á móti þótti stöðugur framburður stúlkunnar og vitna staðfesta frásögn hennar af árásanni.
Stúlkan sagði að þeim hefði sinnast kvöldið fyrir árásina eftir að hún hefði „full hreinskilningslega" lýst því við kærustu hans að hún mæti hann „ekki mikils." Þegar fundum þeirra bar saman síðar þá nótt hrinti ákærði stúlkunni í jörðina.
Kvöldið eftir voru þau, ásamt fjölda fólks, fyrir utan Herðubreið. Árásarmaðurinn mun hafa slegið húfu af höfði stúlkunnar og síðan kýlt hana fyrirvaralaust með krepptum hnefa í andlitið þannig hún fékk bólgu yfir kinnbeini og efri vör.
Dómurinn taldi að þótt drengurinn kynni „að hafa haft ástæðu til að erfa við brotaþola ummæli sem hún hafði nóttina áður látið falla við unnustu hans gat það á engan hátt réttlætt að ákærði réðist með ofbeldi að brotaþola."
Ákærði hefur tvisvar áður fengið dóma fyrir ofbeldisbrot. Refsing hans var því ákveðin tveggja mánaða fangelsi en refsingin skilorðsbundin þar sem hann hélt skilorð fyrri dómsins. Hann var einnig dæmdur til að greiða sakarkostnað upp á rúmar 440 þúsund krónur.