Færir verslun og viðskipti á milli Austur- og Norðurlands tuttugu ár aftur í tímann

fjardarheidi 30012013 0075 webFækkun auglýstra mokstursdaga á Möðrudalsöræfum færir verslun og viðskipti á milli Austur- og Norðurlands áratugi aftur í tímann. Aðilar á báðum stöðum munu missa spón úr aski sínum því væntanlega fara viðskiptin suður á bóginn.

Þetta segir Karl Gunnarsson, svæðisstjóri Eimskipa á Austurlandi. Vegagerðin tilkynnti að vegna aðstæðna á veginum frá Mývatni austur í Jökuldal verði mokstursdögum þar fækkað úr sex í tvo í hverri viku.

„Þetta færir verslun og viðskipti milli Austur og Norðurlands 20 ár aftur í tímann og er gjörsamlega ósættanlegt," segir Karl.

Eimskip/Flytjandi hefur farið daglega á milli Austur- og Norðurlands. Hann óttast að viðskipti milli þessara tveggja landshluta skerðist með þessum ráðstöfunum.

„Skerðing á daglegum ferðum verður til þess að viðskiptum verður ósjálfrátt beint til Reykjavíkur frá hvorum landshlutanum fyrir sig og gæti skaðað hagvöxt milli þessara landshluta varanlega.

Annað er að útflutningur frá Norðurlandi mun fara meira í gegnum Reykjavík en áður og flutningur á ferskum fiski frá Austfjarðarhöfnum til vinnslu á Norðurlandi mun takmarkast. Kostnaður er fylgir ráðstöfunum sem þessum er ófyrirsjáanlegur, öllum til skaða."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar