Tæpa tuttugu tíma að fara „öfuga" leið heim á Hérað frá Akureyri

bjorn armann olafsson 2010Egilsstaðabúarnir Björn Ármann Ólafsson og Susan Ellendersen voru um tuttugu tíma á leið heim til sín frá Akureyri í vikunni því þau gátu ekki farið yfir Möðrudalsöræfi vegna ófærðar.

„Ég ákvað að fara hringinn því ég þurfti að komast austur," segir Björn Ármann sem starfar sem rekstrarstjóri Landflutninga á Austurlandi.

Hann og Susan þurftu norður til Akureyrar á mánudag, meðal annars til að hitta lækni. Björn Ármann segir þau hafa „sloppið í gegn" en þegar þau hafi ætlað til baka eftir hádegi á þriðjudag hafi þau fengið þær fréttir að lokað væri yfir Möðrudalsöræfin og ekki væri tryggt að rutt yrði daginn eftir.

Þegar tíðindin bárust var snúið við hjá Svalbarðsströnd og farið í vesturátt. Björn Ármann segir færið á leiðinni að mestu hafa verið gott. Á Öxnadalsheiði hafi reyndar verið bylur og hálfgerð ófærð, mjög hvasst í kringum Kirkjubæjarklaustur og á síðunni og mikið moldrok og slæmt skyggni á Skeiðarársandi.

Þau stoppuðu tvisvar. Fyrst í kaffi á Selfossi og síðan lögðu þau sig í bílnum í tvo tíma á Höfn áður en síðasti spottinn var ekinn.

„Við var kominn heim hálf átta á miðvikudagsmorgni eftir að hafa lagt af stað frá Akureyri um klukkan tvö daginn áður. Ég lagði mig í klukkutíma og vann svo allan gærdaginn. Ég var ekki lengi að sofna í gærkvöldi."

Vegagerðin tilkynnti í gær að til stæði að moka aðeins á milli Mývatns og Jökuldals tvo daga í viku á næstunni vegna mikilla snjóalaga. Ákvörðuninni hefur sætt harðri gagnrýni víða á Austurlandi þar sem íbúar fjórðungsins þurfa að sækja ýmsa þjónustu norður í land.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar