Hættulega lágt upp í háspennulínur á Fjarðarheiði

fjardarheidi raflina 28022014Mikil snjósöfnun á Austurlandi síðustu daga og vikur hefur orðið til þess að hættulega stutt er orðið upp í raflínur á Fjarðarheiði. Útivistarfólk er hvatt til að fara með gát á austfirskum fjöllum.

Í tilkynningu frá Landsneti er útivistarfólk, einkum skíða- vélsleðafólk, hvatt til að fara „mjög varlega" nærri háspennulínum til fjalla og á hálendinu.

Þar sé nú víða minna en mannhæðar hátt upp í háspennuvíra. „Það er þykkt lag af snjó yfir öllu og orðið stutt upp í leiðara þannig menn verða að fara varlega," segir Ragnar Bjarni Jónsson, verkefnisstjóri hjá Landsneti.

Á Austurlandi er ástandið verst á Fjarðarheiði. Ragnar Bjarni segir að línumenn hafi reynt að fara yfir Oddsskarð í gær en ekki komist yfir vegna veðurs.

„Fjarðarheiðin er helsti hættulegi staðurinn en það er ofboðslega mikill snjór alls staðar þannig fólk verður að fara varlega."

Í tilkynningu Landsnets segir að lítil hæð upp í línurnar geti skapað mikla hættu fyrir þá sem eru á ferðinni á skíðum eða vélsleðum.

Ísing er einnig víða á háspennulínum og getur hún gert það að verkum að bæði leiðarar og möstur verða nær ósýnileg þeim sem eru á ferðinni.

Myndir frá Fjarðarheiði: Landsnet

fjardarheidi raflina 28022014 2

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar