Guðný og Hafliði í Fossárdal hlutu Landbúnaðarverðlaunin
Guðný Gréta Eyþórsdóttir og Hafliði Sævarsson, bændur í Fossárdal í Djúpavogshreppi, hlutu um helgina Landbúnaðarverðlaunin sem afhent voru á Búnaðarþingi. Á jörðinni er rekin ferðaþjónusta, skógrækt og sauðfjárbúskapurVerðlaunin eru hugsuð sem viðurkenning til aðila sem á einn eða annan hátt tengjast íslenskum landbúnaði og hafa sýnt með verkum sínum, áræðni og dugnað þannig að þau eru til fyrirmyndar.
Guðný Gréta og Hafliði hófu búskap í Fossárdal árið 1988 á jörðinni Eyjólfsstöðum í félagi við foreldra hennar. Fyrir 15 árum keyptu þau síðan jörðina Eiríksstaði í Fossárdal ásamt megninu af vélum og bústofni.
„Þau reka nú rekið sauðfjárbú með um 520 vetrarfóðraðar kindur, ferðaþjónustu, skógrækt og rafstöð. Frá árinu 1998 hefur verið unnið markvisst að kynbótum á sauðfénu, fyrst var stefnt að aukinni holdfyllingu og sett met á því sviði, seinni árin hefur verið kynbætt fyrir fleiri eiginleikum
Þau hafa byggt ný fullkomin fjárhús, umhirða gripa er til fyrirmyndar og öll umgengni einnig. Skógræktarsvæðið í Fossárdal er með fjölbreyttri skórækt og einnig nokkuð af skjólbeltum, ásamt vistvænni landgræðslu," segir í rökstuðningi fyrir valinu.
Guðný og Hafliði starfa líka utan bús við landpóstaþjónustu, rúning og smalamennsku.
Þetta var í átjánda skipti sem verðlaunin eru afhent. Að auki fengu íbúar í Friðheimum í Bláskógabyggð og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn í Reykjavík Landbúnaðarverðlaunin.
Guðný Gréta og Hafliði lengst til vinstri ásamt öðrum verðlaunahöfum og landbúnaðarráðherra. Mynd:Bændasamtök Íslands