Vegagerðin: Mokstursdögum alls ekki fækkað í sparnaðarskyni

fjardarheidi 30012013 0006 webTalsmaður Vegagerðar ríkisins harðneitar að fækkun mokstursdaga á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði úr sex í tvo sé gerð í sparnaðarskyni. Aðstæður leyfi einfaldlega ekki meira. Heimamenn eru ekki jafn sannfærðir.

Tilkynnt var um tímabundna fækkun mokstursdaga fyrir helgi og tók hún gildi í gær. Samkvæmt henni á að opna á þriðjudögum og föstudögum. Opna tókst í gær en skafrenningur er á Möðrudalsöræfum í dag og hefur mokstri verið hætt.

Rökstuðningur Vegagerðarinnar fyrir þessum aðgerðum er sá að haldi snjórinn áfram að hlaðast upp meðfram veginum geti snjógöngin orðið það há að mokstursbílar geti ekki kastað snjónum af veginum.

Ekki eru allir jafn trúaðir á þau rök. Austurfrétt hefur síðustu daga rætt við mokstursmenn og fleiri heimamenn sem þekkja til sem virðast sannfærðir um að hin raunverulega orsök sé sparnaður.

Því hafnar G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. „Þessar aðgerðir eru alls ekki gerðar í sparnaðarskyni, hvað sem líður hallanum á vetrarþjónustunni, heldur gerum við þetta til þess að reyna að forðast að lenda í því að það verði alveg lokað á þessum leiðum."

Viðmælendur Austurfréttar hafa bent á aðgerðir sem tiltækar eru þegar snjógöng sem þessi hafa hlaðist upp. Hægt er að nota snjóblásara til að breikka snjógöngin þannig að bílarnir hafi svæði til að kasta snjónum út fyrir veg. Á Mývatnsöræfum hafa ýtur einnig verið notaðar í þeim tilgangi.

Slíkar aðgerðir eru hins vegar afar tímafrekar og dýrar. „Það er skiljanlegt að menn efist um þetta en eigi að síður þá höfum við menn hér hjá Vegagerðinni sem hafa kynnt sér þessa hluti afar vel og hafa margra áratuga reynslu að baki.

Snjógöngin er mjög löng, fjöldi kílómetra að lengd, jafnvel tugir og það er ekki vinnandi vegur að nota jarðýtur á svo löngum köflum og þyrfti þar að auki að koma snjónum nokkuð langt í burtu. Aðstæður á Mývatnsöræfum eru ekki þær sömu og á Fjöllunum."

G. Pétur segir að nú sé hver dagur tekinn fyrir í einu. Aðspurður að því hvort til greina komi að auglýsa hvenær mokstursbílar fari af stað þannig ferðalangar geti elt þá svarar hann að erfitt sé að gefa upp ákveðinn tíma því illa hafi gengið að halda opnu.

„Það er verið að skoða allar hliðar á þessu og mögulegt að það verði tekinn upp fylgdarakstur þannig að gefinn verði upp sérstakur tími. Það er ekkert ákveðið í þeim efnum og ræður reyndar veðrið mestu um þetta allt saman."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar