Breiðdælingar móta framtíðina: Íbúafundur í kvöld

breiddalsvik1 ggÍbúafundur verður haldinn á Breiðdalsvík í kvöld í tengslum við verkefnið „Breiðdælingar móta framtíðina." Á fundinum verður farið yfir skilaboð íbúaþings sem haldið var í byrjun nóvember og hvernig þeim hefur verið fylgt eftir. Atvinnumál voru þar í brennidepli.

Í samantekt frá málþinginu segir að ýmis atvinnutækifæri séu í boði á Breiðdalsvík „ekki síst með því að byggja á sérstöðu svæðisins, náttúru, sögu og matvælaframleiðslu."

Töluvert er af lausu atvinnuhúsnæði á Breiðdalsvík og nýting þess var þátttakendum á íbúaþinginu ofarlega í huga. Meðal annars var rætt um gamla frystihúsið sem hýst gæti ýmsa atvinnustarfsemi.

Þá var töluvert rætt um möguleikann á að byggja upp slipp í gamla sláturhúsinu þar sem bátar undir þrjátíu tonnum yrðu þjónustaðir. Enginn slippur er á svæðinu milli Vestmannaeyja og Seyðisfjarðar.

Þá var töluvert rætt um ferðaþjónustu, matvælavinnslu og opinber störf. Í samfélagsmálum þá var nýting íþróttahússins ofarlega á blaðið og ósk um hátíðisdag Breiðdælinga.

Vinnan er unnin í tengslum við verkefni Byggðastofnunar sem ber yfirskriftina „Brothættar byggðir" Breiðdalshreppur er eitt fjögurra sveitarfélaga sem þátt tekur í því en íbúum hefur þar fækkað um helming á þrjátíu árum.

Íbúafundurinn í kvöld hefst klukkan 20:00 og verður á Hótel Bláfelli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar