Endurhæfing eitt helsta meðferðarúrræðið við lífsstílssjúkdómum

fjardabyggd fsn sundkortValdimar O. Hermannsson, rekstrarstjóri Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað (FSN), veitti í síðustu viku viðtöku árskortum í sundlaugar Fjarðabyggðar. Kortin eru rafræn og veita sjúklingum endurhæfingardeildar sjúkrahússins ókeypis aðgang í sundlaugar Fjarðabyggðar á meðan á meðferð stendur.
Lífsstílssjúkdómar eru í veldisvexti víðast hvar á Vesturlöndum og Ísland er þar engin undantekning. Samkvæmt úttekt Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar tapast á hverju ári af þeirra völdum um 12.000 lífár hér á landi. Er það ýmist vegna ótímabærra dauðsfalla eða örorku. Sjúkdómseinkenni geta komið fram strax upp úr þrítugu þó að áhrifin komi fram síðar.

Endurhæfing er mikilvægur liður í meðferð sjúkdómanna og í mörgum tilvikum hryggjarstykkið í virkum meðferðarúrræðum. Hjá FSN eru átta í hverjum endurhæfingarhópi og útskrifast um 60 til 80 manns á ári. Þverfaglegt teymi fer fyrir meðferðinni skipað lækni, sjúkraþjálfurum, iðjuþjálfa, sálfræðingi, hjúkrunarfræðingi og sjúkraliða.

Einungis þrír viðurkenndir aðilar veita endurhæfingarmeðferð við lífsstílssjúkdómum; Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað (FSN), Reykjalundur í Mosfellsbæ og Kristneshælið á Akureyri.

Innlögn vegna endurhæfingar nemur fjórum vikum og taka sjúklingar þátt í markvissu forvarnar- og uppbyggingarstarfi, sem fram fer virka daga frá kl. 8:00 til 16:00. Með framlagi Fjarðabyggðar gefst sjúklingum kostur á að byggja sig upp samhliða meðferðinni, sem er mikilvægur liður í varanlegri heilsubót.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, afhenti sundkortin. Í máli sínu benti Páll Björgvin m.a. á þýðingu þess að Fjórðungssjúkrahúsið veiti áfram öfluga heilbrigðisþjónustu, enda sé það ein helsta forsenda stöndugs atvinnulífs og áframhaldandi atvinnuuppbyggingar á Austurlandi.

„Ein mikilvægasta forsenda þess er að þjónustan sé í takti við samfélagið sem hún þjónar. Endurhæfing FSN er skýrt dæmi um það en þjónustan, sem byggði upphaflega á endurhæfingu fyrir hjarta- og lungnasjúklinga, svarar nú jafn vel þörfum þeirra sem glíma við lífsstílssjúkdóma.“

Við sama tækifæri tók Valdimar einnig við veglegum gjöfum frá Hosunum, líknarfélagi starfsmanna sjúkrahússins. Hosurnar fjármagna ýmis tækjakaup fyrir FSN, meðal annars með sölu á handverki og stuðningi frá einstaklingum og fyrirtækjum. Að þessu sinni var safnað fyrir þráðlausum monitor fyrir fæðingardeild og stólavigt.

Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri ásamt Önnu Þóru Árnadóttur yfirsjúkraþjálfa, Hörpu Rún Björnsdóttur frá Hosunum, Benedikt Sigurjónssyni forstöðumanni Sundlaugar Norðfjarðar og Valdimar O. Hermannssyni rekstrarstjóra FSN.

Mynd: Kristín Svanhvít Hávarðardóttir.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar