Erna Indriða: Ríkisstjórnin hefur staðið sig ákaflega vel

Erna Indridadottir

Erna Indriðadóttir, sem um helgina hafnaði í öðru sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi þingkosningar, er þeirrar skoðunar að flokksmenn þar hafi valið öflugan lista. Hún segir mikilvægt að koma því á framfæri í vetur að ríkisstjórnin, undir þeirra forustu, hafi staðið ákaflega við erfiðar aðstæður.

„Það var alls ekki sjálfgefið að ég hlyti svona gott brautargengi, enda þrír sitjandi þingmenn í kjöri og það er almennt þannig að sitjandi þingmenn hafa forskot í kosningum sem þessum,“ sagði Erna í samtali við Austurfrétt.

Að flokksvalinu loknu segist hún „fyrst og fremst ánægð með að hafa náð öðru sætinu“ eins hún stefndi það. Fyrir það þakki hún þeim sem studdu hana. Hún þakkar árangurinn því að kjósendum hafi líkað þau sjónarmið sem hún stóð fyrir.

„Ég legg áherslu á byggðamál og tel góðar samgöngur lykilatriði fyrir frekari þróun á okkar svæði. Þá tel ég að það sé mjög brýnt að efla fjárfestingar og skapa ný störf, til að við getum áfram haldið uppi því velferðarkerfi sem við viljum búa við. Án verðmætasköpunar og atvinnu, er það nefnilega ekki gerlegt.“

Ekki slæmt að vera með tvær konur í vonandi öruggum sætum

Á eftir Ernu komu þingmennirnir Jónína Rós Guðmundsdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson sem í síðustu kosningum skipuðu þriðja og annað sæti listans sem kom að þremur mönnum. Fylgið hefur heldur dalað síðan þá en Erna er samt bjartsýn á að Samfylkingunni takist að halda í þingmennina þrjá. 

„Ég tel að flokksmenn og stuðningsmenn Samfylkingarinnar hafi valið mjög góðan lista fyrir næstu kosningar og finnst ekki slæmt að við séum með tvær konur, í vonandi öruggum sætum! Það er meira en lítur út fyrir hjá öðrum flokkum í kjördæminu núna, hvað sem verður þegar listum verður endanlega stillt upp. Konur hafa verið færri hér í hópi Alþingismanna, en í flestum öðrum kjördæmum.“

Við erum komin verulega á leið í endurreisninni

Erna, sem undanfarin ár hefur starfað sem upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls, segir að mikilvægast í kosningabaráttunni í vor verði að auglýsa þann árangur sem ríkisstjórnin hefur náð.

„Ég tel að það sé eitt mikilvægasta verkefnið núna að koma því til skila að þessi ríkisstjórn, undir forystu jafnaðarmanna hefur staðið sig ákaflega vel á þessu kjörtímabili. 

Það sést vel ef menn hugsa fjögur ár aftur í tímann og rifja upp hvernig staðan í þjóðfélaginu var þá. Fólk missti vinnuna, ríkissjóður varð af miklum tekjum, lán stökkbreyttust og óvissa ríkti um hvernig okkur myndi reiða af. 

Við erum komin verulega á leið í endurreisninni, en það hefur ekki verið hægt að gera allt í einu og enn bíða mikilvæg verkefni, sem ég hlakka til að takast á við ásamt félögum mínum í Samfylkingunni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.