Yfirlögfræðingur bað bæjarráð um að bíða með afgreiðslu á úrskurði um gatnagerðargjöld

seydisfjordurSviðsstjóri lögfræðisviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga óskaði eftir því við bæjarstjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar að beðið yrði með afgreiðslu á ráðuneytisúrskurði um gatagerðargjald í bænum á meðan lögfræðisviðið færi yfir úrskurðinn. Úrelt gjaldskrá varð kaupstaðnum fjötur um fót í málinu.

„Það er rétt að það tók nokkrar vikur fyrir mig að vinna minnisblaðið. Óformlega var það rætt milli mín og bæjarstjóra að málið yrði ekki afgreitt án þess að álit lægi fyrir, eins og eðlilegt verður að teljast," segir Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga í svari við fyrirspurn Austurfréttar.

Afgreiðsla málsins hefur orðið að hitamáli í bæjarstjórn Seyðisfjarðar sem náði hápunkti með því að Daníel Björnsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fór fram á að skoðað yrði hvort Þórunn Hrund Óladóttir og Anna Guðbjörg Sigmarsdóttir, fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar sem sitja í minnihluta, hefðu brotið siðareglur kjörinna fulltrúa.

Deilan snérist upphaflega um álagningu gatnagerðargjalda á Lónsleiru ehf. sem reisir hótelíbúðir á Lónsleiru 7 og 9 á Seyðisfirði. Íbúðirnar voru flokkaðar sem verslunar- og skrifstofuhúsnæði en gatnagerðargjald þess er 3,75% af byggingarkostnaði, sem er hæsti gjaldaflokkurinn.

Ákvörðunin var kærð til innanríkisráðuneytisins sem taldi álagninguna ólögmæta þar sem hótelíbúðirnar gætu hvorki flokkast sem verslunar- né skrifstofuhúsnæði. Í úrskurði ráðuneytisins sem þess getið að betra sé að flokka íbúðirnar sem húsnæði undir iðnað og aðra atvinnustarfsemi en gatnagerðargjöldin þar eru 2,20%

Þegar úrskurðurinn var ræddur í bæjarráði vildu bæjarfulltrúar minnihlutans að strax yrði farið að ráðleggingum í úrskurði ráðuneytisins. Meirihlutinn óskaði hins vegar eftir áliti lögfræðisviðs sambandsins og vildi eftir samtal við yfirlögfræðinginn bíða með frekari ákvarðanir þar til það lægi fyrir.

Daníel vill meina að með tillögu sinni í bæjarráði hafi Þórunn og Anna ekki gætt þess að taka ákvörðun í þágu bæjarins sem byggði á sem bestum upplýsingum.

Minnisblað lögfræðingsins barst nokkrum vikum síðar og þar er sveitarfélaginu ráðlagt að fara ekki lengra með málið. Ennfremur að eðlilegt sé að sveitarfélagið beri hallann af því að hafa ekki breytt gjaldskrám sínum. Megin ástæða þess að málið tapaðist er talin vera sú að Seyðisfjarðarkaupstaður uppfærði ekki reglur sínar um gatnagerðargjöld þegar landslögum var breytt árið 2006.

Í minnisblaði lögfræðingsins er bent á að eftir úrskurðinn vakni spurningar um jafnræði fasteignaeigenda í Seyðisfjarðarkaupstað. Annars vegar um þá sem sæki um lóðir undir ferðaþjónustu og þurfi að greiða hærri gatnagerðargjöld heldur en Lónsleira. Hins vegar gagnvart þeim sem vilji byggja íbúðarhúsnæði en gatnagerðargjöld þess eru hærri heldur en þau sem Lónsleira ehf. þarf að borga.

Guðjón segir „töluvert algengt sveitarfélög eða einstakir kjörnir fulltrúar leiti ráða hjá sambandinu. Við reynum að veita leiðbeiningar og góð ráð en vörumst hins vegar mjög að lenda í hlutverki úrskurðaraðila í deilumálum innan sveitarstjórna. Í slíkum málum er eðlilegra að deiliaðilar snúi sér til innanríkisráðuneytisins, á grundvelli sveitarstjórnarlaga."

Eftir að minnisblað hans var lagt fram í bæjarráði var ákveðið að leggja gatnagerðargjöld á Lónsleiru í samræmi við úrskurð ráðuneytisins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar